Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Blogg

Millilending tilnefnd til Menningarverðlauna DV

Partus

Menningarverðlaun-DV-2017-tilnefningar.jpg

Skáldsagan Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson hefur verið tilnefnd til Menningarverðlauna DV í flokki bókmennta.

Millilending er ein af fimm bókum tilnefndum til verðlaunanna í flokki bókmennta í ár, en veitt verða verðlaun í alls sjö flokkum: kvikmyndum, leiklist, tónlist, myndlist, bókmenntum, fræðum og stafrænni miðlun auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun.

Rökstuðningur dómnefndar við tilnefningu Millilendingar er eftirfarandi:

Jónas Reynir Gunnarsson stimplaði sig inn með stæl 2017. Fyrir utan Leiðarvísi um þorp og verðlaunaljóðabókina Stór olíuskip, kom út frumraun Jónasar Reynis í skáldsagnagerð. Millilending er verulega vel gerð, byggð og stíluð. Fyndin og nöturleg næturlífslýsing úr Reykjavík samtímans en þó einkum næm og sannfærandi uppteikning á aðalpersónu með allt á leiðinni niður um sig. Sendiferð Maríu til Íslands áður en hún flytur til pabba síns eftir skipbrot í Brighton getur aldrei farið vel en Jónas heldur áhuga lesandans á lofti með skörpu innsæi, væntumþykju og húmor.

Slitförin hlýtur Verðlaun bóksala

Partus

Ljóðabókin Slitförin eftir Fríðu Ísberg hlaut í kvöld Bóksalaverðlaunin í flokki ljóða. Verðlaunin voru tilkynnt í Kiljunni á RÚV.

Ár hvert kýs starfsfólk bókaverslana á Íslandi bestu bækur ársins í átta flokkum og er þetta í 18. sinn sem verðlaunin eru veitt. Í ár bárust atkvæði frá tæplega 100 bók­söl­um í alls 15 versl­un­um.

Slitförin var talin best í flokki ljóða árið 2017.

FRÍÐA2.png

Slitförin tilnefnd til Fjöruverðlaunanna

Partus

Fjoruverdlaunin-2017-tilnefndar.jpg

Ljóðabókin Slitförin eftir Fríðu Ísberg var í kvöld tilnefnd til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna, í Menningarhúsinu Grófinni í miðbæ Reykjavíkur.

Slitförin er ein af þremur bókum tilnefndum til verðlaunanna í flokki fagurbókmennta í ár, en einnig er tilnefnt í flokki barna- og ung­linga­bók­mennt­a, og fræðibók­a og rit al­menns eðlis. Verðlaun­in verða af­hent í Höfða 15. janú­ar 2018.

Rökstuðningur dómnefndar við tilnefninguna er eftirfarandi:

Slitförin er afar vönduð ljóðabók þar sem í tæplega fjörutíu ljóðum eru dregnar upp fjölmargar litlar myndir af augnablikum úr tilverunni, mannlegum samskiptum, brestum og tilfinningalegu ástandi. Skáldið segir þó um leið mun stærri sögu af samböndum og arfleifð kynslóðanna, vítahringjunum sem verða til upp úr erfiðu fjölskyldumynstri og hinni vandrötuðu leið sem unglingsstúlka þarf að feta til að öðlast sjálfstæða vitund ungrar konu. Eftirtektarvert er hve örugg tök höfundurinn hefur á fjölbreyttu myndmáli og hvernig hún nær með nálgun sinni að forðast tilgerð og koma hverri hugsun til skila á beinskeyttan hátt. Þrískipting bókarinnar og kaflaheitin Skurður, Slitförin og Saumar endurspegla þroskaferli ljóðmælandans og verkið er gjöful lesning í heild sinni en þó stendur hvert ljóð einnig sem sjálfstætt listaverk. Slitförin er vel uppbyggð og áhrifarík bók sem ber hæfileikum ljóðskáldsins gott vitni.

Hægt er að lesa nokkur ljóð úr bókinni hér og hér.

Jónas Reynir hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Partus

Jónas Reynir Gunnarsson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar frá Reykjavíkurborg í ár en Dagur B. Eggertsson afhenti verðlaunin við athöfn í Höfða í dag.  Mynd: Vísir/Anton Brink

Jónas Reynir Gunnarsson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar frá Reykjavíkurborg í ár en Dagur B. Eggertsson afhenti verðlaunin við athöfn í Höfða í dag. Mynd: Vísir/Anton Brink

Jónas Reynir Gunnarsson hlýtur Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í ár fyrir ljóðabók sína, Stór olíuskip, sem er gefin út af Partusi.

Dagur B. Eggertsson, borgarstóri, afhenti verðlaunin við athöfn í Höfða í dag og var bókin gefin út jafnóðum. Alls bárust 51 handrit til dómnefndar en fram hefur komið að handritið að fyrstu ljóðabók Jónasar, Leiðarvísi um þorp, var í öðru sæti hjá dómnefnd verðlaunanna í fyrra.

Hægt er að lesa nokkur ljóð úr bókinni hér.

Úlfhildur Dagsdóttir, Þórarinn Eldjárn og Illugi Gunnarsson skipuðu dómnefnina í ár. Í umsögn þeirra segir:

Stór olíuskip er sterkt og fallegt verk. Ljóðin eru stílhrein og myndmálið ferskt og grípandi. Heildarmyndin er fimlega smíðuð og kallar á endurlestur; stóru olíuskipin sigla inn og út um vitund lesandans og skilja eftir sig fínlegt kjölfar tilfinninga sem spanna allt frá depurð og eftirsjá til hógværs fagnaðar.

Bréf frá ritstjóra – Þórdís Gísla til Guðrúnar Heiðar

Partus

Sunnudaginn 03. september 2017 gaf Guðrún Heiður Ísaksdóttir út ljóðabókina Mörufeldur, móðurhamur, í flokki Meðgönguljóða. Eins og aðrir höfundar sem gefa út í ritröðinni vann Guðrún með ritstjóra við að undirbúa verkið til útgáfu – en ritstjóri Guðrúnar, Þórdís Gísladóttir, var stödd erlendis við útgáfu bókarinnar í Mengi og skrifaði því eftirfarandi bréf sem var flutt í boðinu.

Þórdís Gísladóttir skrifar:


Heiðraða útgáfupartý!

Í byrjun síðasta árs gaukaði Kristín Svava að mér handriti eftir Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur og spurði hvort ég væri til í að lesa það og íhuga hvort ég gæti hugsað mér að vinna efnið með höfundinum, sem ritstjóri, svo úr yrði Meðgönguljóðabók. Ég renndi yfir textana og féll strax fyrir handritinu. Sem kona með mikið tískuvit og næmi á strauma tímans sá ég strax að þarna væri kominn vísir að ritverki sem svaraði kalli samtímans; höfundur vinnur með þjóðararfinn og endurnýjar hann á nútímalegan hátt – sem er mjög mikið í tísku um þessar mundir – Guðrún Heiður notar eina af elstu Íslendingasögunum sem efnivið til endurvinnslu og eins og við vitum öll er endurvinnsla gríðarlega mikið í umræðunni nú um stundir og allir sammála um að endurvinnsla sé þjóðþrifamál. 

1. kafli Heiðarvíga sögu hljóðar svona: 

Atli stóð í dyrum úti og var hann veginn af manni nokkrum sem deildi við hann af einum langási. Reiddi hann burt ásinn. Þar með endaðist sá capituli. 

Þarna var sem sagt einhver óþekktur Atli drepinn og víg hans afgreitt á vægast sagt stuttaralegan hátt: þar með endaðist sá kapítuli. Í textunum sínum notar Guðrún Heiður þetta grátbroslega stef úr einni af elstu Íslendingasögunum á frumlegan og persónulegan hátt, í rauninni má alveg halda því fram að hún hafi fundið upp nýja bókmenntategund. Og nú eru þessir textar komnir út í bókinni Mörufeldur, móðurharmur.

Í Mörufeldi, móðurharmi eru margar heillandi pælingar og ferskur og dálítið hrár tónn sem náði mér strax við fyrsta lestur. Ég sá að þetta gæti orðið frábær bók með dálítilli viðbótarvinnu. Í vinnslu tók handritið nokkrum breytingum. Um tíma varð það að efniviði í einstaklingsnámskeið við Háskóla Íslands og þá þurfti að straumlínulaga textana og skrifa lærðan inngang. Háskólakennarar eru örlítið rúðustrikaðir og gera kröfur um ákveðin vinnubrögð, við þeim kröfum þurfti að bregðast og það gerði höfundurinn fúslega og af listrænu næmi. En þegar kom að sjálfri útgáfunni tók Guðrún Heiður smá snúning til baka og ákvað að nota aðeins hrárri handritsútgáfu en þá sem skilað var sem háskólaverkefni. Þessu má kannski líkja við það þegar tónskáld semur lag og útsetur fyrir mörg hljóðfæri en snýr sér síðan aftur að því að spila lagið á kassagítar því stundum hljómar það hráa og einfaldara bara betur. 

Ég er þakklát forsvarsmönnum Meðgönguljóða fyrir að hafa fengið mig til að taka þátt í meðgöngu og fæðingu bókar Guðrúnar Heiðar og sendi bestu hamingjuóskir til hennar og annarra meðgönguljóðskálda sem fagna útkomu bóka sinna í dag.

Guðrún Heiður Ísaksdóttir í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Mörufeldur, móðurhamur“ í Mengi. Mynd: Hallgrímur Helgason

Guðrún Heiður Ísaksdóttir í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Mörufeldur, móðurhamur“ í Mengi.
Mynd: Hallgrímur Helgason


Fyrsta Fræ Partusar

Partus

Í byrjun september fagnar Partus útgáfu fyrstu bókar í nýrri seríu – esseyjan (Þjóðar)sálin hans Jóns míns eftir Birki Blæ Ingólfsson er fyrsta verkið í flokki Fræja, ritgerðaröð um samfélagið og samtímann.

Mynd: © Partus   / Gulli Már

Mynd: © Partus / Gulli Már

Verkið fjallar um hugarheim og sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, sem höfundur telur tákngerast í þjóðsagnapersónunni konunni hans Jóns míns sem gekk upp til himna til að valta yfir Drottin og „dúndra sínum heittelskaða fram hjá kerfinu“ og inn í Paradís. Þannig varð hún táknmynd sérmeðferðarmenningarinnar, oflætisins og sjálfumgleðinnar sem einkennir íslensku þjóðina á köflum.

‚aflandsfélag‘ er bara annað heiti á ‚sérmeðferð‘ sem varð að þjóðarsporti eftir að konan hans Jóns míns setti Íslandsmetið með því að skjóta sér undan almennum reglum Drottins

Bókin er sú fyrsta í nýjum bókaflokki Partusar sem nefnist Fræ. Serían er vettvangur til að miðla ólíkum sjónarhornum á heiminn. Fræin eru tilraunir til að greina, skilja eða skýra veruleikann – eða kannski þvert á móti gagnrýna hann og vekja upp óvæntar spurningar.

Verkinu var ritstýrt af Kristjáni Guðjónssyni, Marteini Sindri Jónssyni og Valgerði Þóroddsdóttur. Um bókarhönnunina sá Luke Allan.

Meðgönguljóð nr. 25: „Vatnsstígur“

Partus

                                                                                                                      Mynd: © Partus / Gulli Már

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

Tryggvi Steinn Sturluson er höfundur 25. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Vatnsstígur er fyrsta ljóðabók Tryggva sem starfar sem bóksali í Hafnarfirði.

ég elti þig inn
á milli svartra veggja

heimurinn undarlega hljóður
bakvið rokið

Í tregafullum ljóðum Tryggva Steins eru ljós og skuggar á sífelldri hreyfingu á meðan konan á efri hæðinni dansar hægt um gólfið á háum hælum. Vatnsstígur er smálegt ljóðverk sem læðist út úr haustmyrkrinu. Það fjallar um ástir sem renna út í sandinn og leiðir fólks inn í skugga og út úr þeim. Ljóðin takast, í örfáum línum, á við mismerkilegar hugmyndir og tilfinningar á borð við missi og vonleysi, einmanaleika og einangrun, fyrringu, fortíðarþrá, von, sátt og tregagleði. Höfundur dregur upp draumverulegar myndir sem miðla látlausri innri fegurð í gegnum myrkur og kulda. Vatnsstígur hentar vel til lestrar á bakvið regn og skítugar gluggarúður með ylinn í bakið.

Bókin kemur út á sunnudaginn 3. september og verður útgáfu fagnað í Mengi kl. 17:00. Henni var ritstýrt af Hallgrími Helgasyni.

vatnsstigur-partus

Meðgönguljóð nr. 24: „Mörufeldur, móðurhamur“

Partus

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

Guðrún Heiður Ísaksdóttir er höfundur 24. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Mörufeldur, móðurhamur er fyrsta ljóðabók Guðrúnar sem starfar sem myndlistarmaður í Reykjavík.

Leiðarstef Guðrúnar í bókinni er setning úr upprifjun Jóns Grunnvíkings af fyrsta kafla Heiðarvíga sögu, sem glataðist í eldi. Þannig gefur hún til kynna að ljóðverkið sé samansafn ótengdra brota úr hálfgleymdri ævi.
 

Bókin kemur út á sunnudaginn 3. september og verður útgáfu fagnað í Mengi kl. 17:00. Henni var ritstýrt af Þórdísi Gísladóttur.

Ljóð vikunnar

Partus

Tuttugu línur um borgina

eftir Braga Ólafsson

 

Heil borg
fellur ekki af himnum ofan
og fær um leið nafn eins og Höfðaborg eða Grosní.
Borg er byggð. Og byggð
er borg. Og inn í borgina
liggur gata úr óbyggðunum.
En gatan sem liggur inn í hringtorgið
er ekki í laginu eins og spurningarmerki
að ástæðulausu.
                              En hver er spurningin?
Hvað er það sem fellur ofan af himnum,
annað en snjórinn og froskarnir?
                                                       Rigningin.
En sé það rigning,
verður að vera borg til að taka á móti henni.
Og þess vegna er Reykjavík. Borgin með gleraugun
– með glerið fyrir augunum –
sem liðast í sundur undir sólinni
en kemur til sjálfs sín aftur
þegar rignir.


Tuttugu línur um borgina birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Meðgönguljóð nr. 23: „Leiðarvísir um þorp“

Partus

                                                                                                                Mynd: © Partus   / Gulli Már

                                                                                                                Mynd: © Partus / Gulli Már

Jónas Reynir Gunnarsson er höfundur 23. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Leiðarvísir um þorp er fyrsta ljóðabók Jónasar Reynis sem starfar sem rithöfundur.

Í bókinni er að finna leiðbeiningar um staði, tímabil, manneskjur og minningar. Leiðbeinandinn stendur í mýri, eltir blaðbera og styttir sér leið í gegnum garð nágrannans, áður en hann vísar loks lesandanum aftur heim. En þorpið hefur áhrif á þá sem heimsækja það – og gestirnir hafa áhrif á þorpið.

Bókin kemur út á sunnudaginn 3. september og verður útgáfu fagnað í Mengi kl. 17:00. Bókin hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands. Henni var ritstýrt af Þórði Sævari Jónssyni.

Meðgönguljóð nr. 22: „Glergildra“

Partus

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

Megan Auður Grímsdóttir er höfundur Glergildru – 22. bókar í seríu Meðgönguljóða, bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Glergildra er fyrsta ljóðabók Megan Auðar sem stundar myndlistarnám í Hollandi.

Megan teiknar upp hráa og nákvæma mynd af Reykjavík þar sem ljóðmælandi tekst á við innri þunga í eilífri leit að stundarlétti.

Bókin kom út 15. ágúst 2017. Kristín Svava Tómasdóttir ritstýrði verkinu.

Ljóð vikunnar

Partus

Steinn

eftir Tryggva Stein Sturluson


þú snýrð baki
í himininn

á meðan ég renni fingri
yfir áletrun

og reynitrén teygja
skuggana og fölar greinar
í átt til okkar

ríghalda með rótum
í fólkið
í moldinni

heil ævi táknuð með
einu bandstriki

það er mikið lagt
á eitt greinarmerki


Steinn birtist í fyrstu ljóðabók Tryggva, Vatnsstígur, sem er væntanleg í seríu Meðgönguljóða sumarið 2017.

Hús skáldanna

Partus

Seamus Heaney sem maður og barn, í HomePlace í Bellaghy.  Mynd © Pól Ó Conghaile

Seamus Heaney sem maður og barn, í HomePlace í Bellaghy. Mynd © Pól Ó Conghaile

Valgerður Þóroddsdóttir skrifar:

Í smábænum Bellaghy á Norður-Írlandi var nýlega reist safn og samkomustaður til heiðurs skáldsins Seamus heitins Heaney. Skammt frá bóndabýlinu þar sem Nóbelskáldið fæddist árið 1939 stendur þetta tilkomumikla minnismerki um líf hans og verk – HomePlace.

Hvað umfang og kostnað varðar er áhugavert að staldra við þá staðreynd að þetta stórvirki var reist til heiðurs skálds – við erum að tala um mann sem skrifaði einungis ljóð. Ég veit að flestar þjóðir kunna (út á við) að bera mikla virðingu fyrir skáldum sínum (sérstaklega ef þau eru dáin og hætt að vera með vesen og sérstaklega ef minning þeirra þjónar ferðamannaiðnaðinum), en til samanburðar mætti benda á að nokkrum (hundruðum) kílómetrum sunnar, í safni tileinkað Brontë systrunum í Haworth á Norður-Englandi, er ekki mikill matur gerður úr ljóðunum hennar elsku Emily, og erfitt að ímynda sér að túristahaugurinn sem heimsækir staðinn (nálægt hundrað þúsund manns á hverju ári) hafi mikið gluggað í ljóðin.

Írland er vissulega, í stóra samhenginu, nokkuð jákvætt gagnvart ljóðlistinni – þ.e.a.s. að þar er haldið sérstaklega upp á ljóðlistina sem bókmenntaform, og saga Írlands eins og hún hefur verið skrifuð státar sig af skáldum landsins. En það breytir því ekki að það er engin bókabúð í Bellaghy utan veggja HomePlace, og er safnið því ákveðin vin í ljóðaeyðimörk landsbyggðarinnar.

Seamus Heaney HomePlace í Bellaghy í miðri Londonderrysýslu á Norður-Írlandi – eina bókabúðin í bænum.

Seamus Heaney HomePlace í Bellaghy í miðri Londonderrysýslu á Norður-Írlandi – eina bókabúðin í bænum.

Nálgun safnsins er nokkuð hefðbundin en þó áhugaverð. HomePlace er stútfullt af munum hans Seamus – þarna er skólaborðið sem hann sat við sem barn; gamla skjalataskan hans; ótal myndir af honum, fjölskyldunni hans og fólkinu sem hann þekkti. Og allt er þetta greint í smáatriðum. Allar utanlandsferðir hans eru kortlagðar. Ljósmyndir af og lýsingar á fólki og stöðum sem bregða fyrir í einstökum ljóðum þekja einn vegg, og upplýsingar um börn og barnabarnabörn Seamus og konunnar hans, Marie, klæða annan. Þetta minnir í rauninni bara á venjulegt safn nema hvað fólkið á myndum er margt þeirra ennþá sprelllifandi og standa í eigin persónu í næsta herbergi.

Fyrsta hæðin er þannig tileinkuð manninum sem fígúru, en gerir einnig tilraun til þess að lýsa leiðina inn í ljóð hans með því að varpa ljósi á það sem er áþreyfanlegt – á staði og fólk. (Þetta eru auðvitað klassísk mistök, en meira um það síðar.)

Gestir skoða ítarefni um börn Seamus og Marie Heaney í HomePlace.

Gestir skoða ítarefni um börn Seamus og Marie Heaney í HomePlace.

Á efri hæð húsins er sama tilraun gerð en með örlítið öðrum hætti. Þar eru einnig ljósmyndir af því sem kemur fram í ljóðum Seamus, nema viðfangsefnið er í þessu samhengi meira abstrakt. Veggirnir eru þannig þaktir myndum af því sem átt er að hafa veitt Seamus innblástur (ég hugsa, í hvert skipti sem ég heyri þetta orð, alltaf um viftu sem blæs óþægilega framan í viðkomandi. Innblástur ætti miklu frekar að vera myndlíkt við sólargeisla, eða eitthvað annað fyrirbæri sem er nærri því að brúa hinn efnislega og hinn óræða – yfirnáttúrlega – dulræna heim). En myndirnar sýna m.a. tunglsljós sem glampar yfir dimman sjó; uglu; hrúgu af jarðarberjum; hjóldekk. Annars staðar í herberginu hangir órói af stökum orðum úr ljóðum Seamus.

Hér höfum við svosem heiðarlega tilraun til að nálgast flókið fyrirbæri – hvernig ætti að reisa minnismerki um skapandi mann og sköpunarverk hans? Hvernig fangar maður jafn abstrakt fyrirbæri og innblástur? Það er ástæða fyrir því að flestar tilraunir til að gera skil á skapandi ferli listamanna ganga illa upp – það er nánast ómögulegt að kortleggja þetta: flest skáld vita það ekki sjálf hvernig sköpunarverk þeirra verða til og það að sitja við borð í marga klukkutíma telst víst ekki vera nægilega dýnamísk lýsing á verknaðinum.

Svarið er þá, eflaust, að maður getur ekki kortlagt innblástur eða sköpunarferli. Sköpunarverkið – skáldverkið sem slíkt – vaknar til lífs í huga skáldsins og lifir á endanum aðeins í huga lesandans. Bókin sem hlutur er vissulega jarðtengd, og kann vissulega að vera sculptural, eins og sumir vilja lýsa henni – hún hlúir semsagt að fisískum lögmálum. En verkið sjálft gerir það ekki, skáldverkið lifir ekki í hinum efnislega heimi.

Heiðamýrlendið í bakgarði Brontë systranna í Vestur-Yorkshire á Englandi.  Mynd © Vala Þórodds

Heiðamýrlendið í bakgarði Brontë systranna í Vestur-Yorkshire á Englandi. Mynd © Vala Þórodds

Blessun og bölvun ljóðlistarinnar er einmitt sú að það er býsna erfitt að koma henni fyrir upp á vegg. Þess vegna getur hún verið svo hættuleg – það liggur við að hún sé bara hugmynd. (Þegar maður sér bókahillu hugsar maður ekkert endilega um texta.) Og þá sitjum við uppi með þetta vandamál – hvernig er hægt að búa til safn, fisískt rými, um skáldskap og um skrifandi fólk? Það virðist sem við getum ekki annað gert en að reyna, því söfn eru staðir til varðveislu, þau eru okkar minnismerki – okkar leið til að viðurkenna þá sem hafa troðið farveginn sem við göngum í dag.

Á Englandi er mikið af svokölluðum bláum veggskjöldum, eða blue plaques, sem sýna fram á að eitthvað merkilegt hafi átt sér stað í einhverju húsi. Eitt slíkt hangir utan á Chalcot Square númer 3 í Primrose Hill í London – húsinu þar sem Sylvia Plath bjó með Ted Hughes, átti sitt fyrsta barn og gaf út sína fyrstu ljóðabók, The Colossus, og sína fyrstu og einu skáldsögu, The Bell Jar.

Margir mótmæltu því að blái veggskjöldurinn til minningar Sylviu yrði staðsettur þar en ekki við 23 Fitzroy Road, þar sem hún skrifaði sitt síðasta og frægasta verk, Ariel, og þar sem hún tók sitt eigið líf. Aðspurð af hverju skjöldurinn hafi verið settur við Chalcot Square en ekki Fitzroy Road, svaraði Frieda Hughes, dóttir Sylviu og Ted, „móðir mín dó þar … en hún lifði hér.“

Ég átti nýlega erindi í búð í Bloomsbury hverfinu í London og þegar ég steig út úr búðinni blasti við mér, beint á móti, annað hús sem spilaði hlut í sögu Sylviu og Ted. Þar var enginn skjöldur sjáanlegur en það var eitthvað við heimilisfangið sem virtist mér skyndilega kunnuglegt. Var þetta þar sem Sylvia bjó og „lifði?“ Eða þar sem hún upplifði einn kaldasta vetur í sögu Englands og batt enda á líf sitt? Nei, þetta hljót að vera þar sem Ted kallinn bjó; þar sem hann og Sylvia áttu að hafa fyrst slegið sér saman; þar sem hann hélt framhjá henni kvöldið sem hún drap sig; þar sem hann fékk símtalið næsta dag um að Sylvia væri dáin.

Then a voice like a selected weapon
Or a measured injection,
Coolly delivered its four words
Deep into my ear: “Your wife is dead.”

Ljóðið fræga heitir eftir þessu húsi, „18 Rugby Street“, og birtist í bókinni Birthday Letters sem Ted sendi frá sér aðeins nokkrum mánuðum áður en hann sjálfur dó, þá gamall maður, úr krabbameini árið 1998.

So there in Number Eighteen Rugby Street's
Victorian torpor and squalor I waited for you.
I think of that house as a stage-set

Four floors exposed to the auditorium.
On all four floors, in, out, the love-struggle
In all its acts and scenes, a snakes and ladders
Of intertangling and of disentangling
Limbs and loves and lives. Nobody was old.
An unmysterious laboratory of amours.
Perpetual performance
– names of the actors altered,
But never the parts. They told me: 'You
Should write a book about this house. It's possessed!
Whoever comes into it never gets properly out!
Whoever enters it enters a labyrinth

A Knossos of coincidence! And now you're in it.'
[...]

Top Withens, eyðibýli í nágreni þorpsins Haworth þar sem Brontë systurnar bjuggu, er talið af sumum vera innblástur Wuthering Heights í samnefndri skáldsögu eftir Emily Brontë.  Mynd © Vala Þórodds

Top Withens, eyðibýli í nágreni þorpsins Haworth þar sem Brontë systurnar bjuggu, er talið af sumum vera innblástur Wuthering Heights í samnefndri skáldsögu eftir Emily Brontë. Mynd © Vala Þórodds

Nokkrum vikum seinna heimsótti ég hús Brontë systranna í Vestur-Yorkshire – þar sem þær skrifuðu allar sín helstu verk, veiktust og voru dregnar til dauða langt fyrir aldur fram – Anne 29 ára, Emily 30, og Charlotte 38 ára. (Söguperrar munu réttilega benda á að Emily dó reyndar ekki í húsinu, heldur í Scarsborough þar sem hún hafði vonast til að ferska sjávarloftið myndi lækna sig af berklunum sem engu að síðar drápu hana fjórum dögum eftir brottför frá húsinu.)

Systurnar voru að sjálfsögðu ekki heima þegar ég bankaði upp á hjá þeim í Haworth og húsið vakti í mér engar tilfinningar. Ég hafði einhvern veginn búist við því, og komið með það markmið helst að skoða heiðamýrlendið í bakgarðinum sem spilaði svo stóran hlut í verkum þeirra, sérstaklega Emily. Eftir að hafa skoðað hina ýmsu rúmstokka og kjóla og pennaodda í húsinu gekk ég loks af stað í átt að mýrunum, í von um að upplifa staðinn þar sem þær systurnar – og ímyndunarafl þeirra – höfðu í raun „lifað.“

Sólin skein og ég gekk í allt að fjóra klukkutíma, þangað til ég kom á endanum að smábænum Heptonstall, skammt frá því þar sem Ted Hughes var alinn upp og hvar Sylvia Plath er grafin. Ég hafði komið þangað nokkrum laugardögum fyrr af hálfgerðri tilviljun, ekki vitandi þá að hægt væri að labba á milli grafa þessara miklu skálda. Þá hafði ég séð, við legstein Sylviu, fjöldann allan af pennum og einnig eina búðarkvittun sem sýndi fram á kaup á ljóðabókinni Ariel, verkið sem Sylvia skildi eftir sig þegar hún dó.

Það er ekki svo einfalt eftir allt saman að staðsetja fólk – eða allra heldur minningu þeirra – eftir að það er farið úr þessum heimi. Við höfum (oftast) grafreitina en það er einhvern veginn ekki nóg – maður finnur ekki fyrir manneskjum þegar maður heimsækir grafir þeirra, grafreitir eru miklu frekar minnismerki um dauða heldur en um líf einhvers.

Og þá leitum við annað, leitum að minnismerkjum um lífið.

Skáldskapur er svolítið eins og minning. Við eigum tákn, skúlptúra – bækur – en minningin lifir aðeins í huganum. Ég þykist ekki þekkja manneskjuna Sylviu en ég hitti hana stundum í huganum. Sem skáld er hún vinkona mín. Brontë systurnar líka. Og ég minnist þeirra oftast heima hjá mér, og í bókahillunni minni standa mörg minnismerki um þær.

Leikkonan Fiona Shaw les ljóðið  „ Mycenae Lookout “  eftir Seamus Heaney í morgunmistrinu við Lough Beg á Norður-Írlandi.  Mynd © Vala Þórodds

Leikkonan Fiona Shaw les ljóðið Mycenae Lookout eftir Seamus Heaney í morgunmistrinu við Lough Beg á Norður-Írlandi. Mynd © Vala Þórodds

Á opnunarhátíð HomePlace var keyrt með gestina snemma morguns að Lough Beg og þar í morgunmistrinu las leikkonan Fiona Shaw upp ljóðið „Mycenae Lookout“ eftir Seamus Heaney. Það var ótrúlega kalt. Okkur var skenkt írskt viskí í plastglös. Moldin var blaut og rakinn gerði kuldann gjörsamlega miskunnarlausan. Í fjarska hafði verið kveiktur lítill eldur í grasinu. Fiona stóð á heybagga og las. Kuldinn náði inn undir allt. Það var ekkert að sjá nema mistrið. Á meðan við hlustuðum var ekkert að gera nema að reyna að stíga upp úr og út úr líkamanum. Að gleyma því áþreifanlega og hverfa inn í textann.

Hvernig nálgast maður það sem ekki er jarðneskt? Er það ekki einmitt það sem trúarlegar athafnir reyna að gera? Og hvað er upplestur þá annað en töfraþula, eða kannski miðilsfundur? Árla morguns reyndum við að hengja sköpunarverkið upp í mistrinu. Og í nokkrar mínútur, já – þar hékk það.

Ljóð vikunnar

Partus

Lúr í vagninum

eftir Anton Helga Jónsson

 

Það jafnast ekkert á við lúr í vagninum.

Ég grenja þegar mamma dúðar mig niður
en sofna um leið og hún vaggar af stað.

Mamma trillar oft vagninum inn í strætó.
Önnur mamma trillar þeim vagni um borgina.
Enn önnur mamma trillar jörðinni kringum sólina.
Mamma allra mamma trillar sólkerfi út eftir vetrarbraut.

Allt þetta gerist meðan ég fæ mér lúr í vagninum.

Á meðan ég fæ mér lúr gerist líka allt hér heima.
Fjallajeppi spólar á gangstétt.
Hundamaður setur kúk í poka.

Ég veit alveg hvert við erum að fara.
Ég hef komið áður.

Bráðum verð ég þriggja mánaða
bráðum verð ég eins árs og tólf ára
bráðum fer að styttast í tvítugt og þrítugt.

Allt í einu hrekk ég upp og næsta stopp er áttrætt.

Ég þekki þessi augu sem horfa á mig. Mamma.


Ljóðið Lúr í vagninum birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Fríða Ísberg hlýtur Nýræktarstyrk

Partus

Pedro Gunnlaugur Garcia og Fríða Ísberg hljóta nýræktarstyrki frá Miðstöð íslenskra bókmennta í ár en Kristján Þór Júlíusson afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi í dag.

Pedro Gunnlaugur Garcia og Fríða Ísberg hljóta nýræktarstyrki frá Miðstöð íslenskra bókmennta í ár en Kristján Þór Júlíusson afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi í dag.

Fríða Ísberg hefur hlotið Nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta í ár fyrir sína fyrstu ljóðabók, Slitförin, sem er væntanleg til útgáfu hjá Partusi í haust.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi í dag. Þetta er í tíunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað en í ár bárust 57 umsóknir og er það metumsóknarfjöldi. Í umsögn dómnefndar um bók Fríðu segir:

„Slitförin er safn ljóða sem fjalla á ágengan hátt um togstreituna við að brjótast undan áhrifavöldum bernskunnar og finna leiðina að eigin sjálfi. Leiðarstef verksins er sársaukinn sem sprettur úr nístandi sorg milli barns og foreldris. Ljóðin taka pláss, sýna afstöðu og grípa lesendur föstum tökum.“

Hægt er að lesa ljóð úr bókinni hér.

Ljóð vikunnar

Partus

gefið og tekið

eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur

 

hér var eitt sinn fólk
sem skipti annað fólk máli
það átti drauma
og sinn eigin sérstaka hlátur
það átti jafnvel
lítið servíettusafn
sem það geymdi
í gömlum konfektkassa

hér voru eitt sinn konur
sem gerðu allt
fyrir alla
og lítið fyrir sig
nema að vona það besta
þegar heimili voru sköpuð
og enginn kunni að meta
eitt né neitt

hér var eitt sinn þú
ef þú værir hér nú
værir þú örugglega nýkomin úr klippingu
og ég myndi segja
vá en fínt hárið
sem þú myndir svara með
nei er það ekki svolítið skrítið
ýfa það til
og spyrja hvort ég sé
sátt þar sem ég er


Gefið og tekið birtist í fyrstu ljóðabók Díönu Sjafnar, FREYJA, sem er væntanleg til útgáfu í flokki Meðgönguljóða í febrúar 2018.

Ljóð vikunnar

Partus

Glergildra [brot]

eftir Megan Auði Grímsdóttur

 

Ég raðaði orðunum svo þú skinir sem bjartast,
gegnum reykmatta þokuna sem hékk utan á okkur.
Maður gæti séð það sem ljóðrænt að allt sé grátt í Reykjavík.
Ljóðrænt.
En ég er hætt að flækja lífinu saman við listina,
og grár fær mig til að gráta.

Ég raðaði orðunum þínum svo þú skinir og þú skín.

Skærgulur, mosagrænn,
himnablár ef ég píri augun.

En mest af öllu ertu grár.


Glergildra.jpg

Ljóðið hér að ofan er ótitlað brot úr fyrstu ljóðabók Megan, Glergildru, sem myndar eina heild og er væntanleg hjá Meðgönguljóðum sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

Ó borg

eftir Kristínu Ómarsdóttur

 

ég týni sjálfri mér eins og vasaúri
eins og kreditkorti, frumkvöðull gleymskunnar
ryður brautina í átt til: öskuhauganna
ég æfi mig í: tortímingu
                           ~
gata mín týnir mér og ég heimta
ég fer fram á: engin tengsl
klæði mig út tengslum (fyrir framan
meistara minn) á óminnisakri
                           ~
ég horfi í augu hins óþekkta
án eftirsjár og bið: týndu mér
                           ~
gata, skráðu ekki daginn þegar ég hverf úr
þessu logabjarta hverfi, gefðu máfunum
skugga minn og brauðmylsnu

eitt sinn stillti ég skriðdreka (upp í ljóði)
sem ég keypti í alþjóðlegum pöntunarlista
fyrir utan hús mitt

týndu mér, ég vil ekki: finnast


Ó borg birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Ljóð vikunnar

Partus

Tjarnargata

eftir Ingólf Eiríksson

 

Skýjabólstrar halda hver sína leið,
stöku brestir myndast
í himinskurninni.

Rauður bjarmi streymir út um sprungurnar,
hikandi eitt andartak,
síðan fossandi stórfljót
sem þekur loftið,
færir tómlátri borg
yfirnáttúrlegan blæ.

Létt gola feykir laufhrúgu
niður eftir Tjarnargötunni.

Það eru gárur á kyrrlátu vatninu,
svanir fljóta eirðarlausir í fjarska.

Með fíngerðum strengjum
dregur ágústkvöldið okkur
inn í haustkyrrðina.

Fyrsta ljóðabók Ingólfs er væntanleg í seríu Meðgönguljóða.