Nokkrum vikum seinna heimsótti ég hús Brontë systranna í Vestur-Yorkshire – þar sem þær skrifuðu allar sín helstu verk, veiktust og voru dregnar til dauða langt fyrir aldur fram – Anne 29 ára, Emily 30, og Charlotte 38 ára. (Söguperrar munu réttilega benda á að Emily dó reyndar ekki í húsinu, heldur í Scarsborough þar sem hún hafði vonast til að ferska sjávarloftið myndi lækna sig af berklunum sem engu að síðar drápu hana fjórum dögum eftir brottför frá húsinu.)
Systurnar voru að sjálfsögðu ekki heima þegar ég bankaði upp á hjá þeim í Haworth og húsið vakti í mér engar tilfinningar. Ég hafði einhvern veginn búist við því, og komið með það markmið helst að skoða heiðamýrlendið í bakgarðinum sem spilaði svo stóran hlut í verkum þeirra, sérstaklega Emily. Eftir að hafa skoðað hina ýmsu rúmstokka og kjóla og pennaodda í húsinu gekk ég loks af stað í átt að mýrunum, í von um að upplifa staðinn þar sem þær systurnar – og ímyndunarafl þeirra – höfðu í raun „lifað.“
Sólin skein og ég gekk í allt að fjóra klukkutíma, þangað til ég kom á endanum að smábænum Heptonstall, skammt frá því þar sem Ted Hughes var alinn upp og hvar Sylvia Plath er grafin. Ég hafði komið þangað nokkrum laugardögum fyrr af hálfgerðri tilviljun, ekki vitandi þá að hægt væri að labba á milli grafa þessara miklu skálda. Þá hafði ég séð, við legstein Sylviu, fjöldann allan af pennum og einnig eina búðarkvittun sem sýndi fram á kaup á ljóðabókinni Ariel, verkið sem Sylvia skildi eftir sig þegar hún dó.
Það er ekki svo einfalt eftir allt saman að staðsetja fólk – eða allra heldur minningu þeirra – eftir að það er farið úr þessum heimi. Við höfum (oftast) grafreitina en það er einhvern veginn ekki nóg – maður finnur ekki fyrir manneskjum þegar maður heimsækir grafir þeirra, grafreitir eru miklu frekar minnismerki um dauða heldur en um líf einhvers.
Og þá leitum við annað, leitum að minnismerkjum um lífið.
Skáldskapur er svolítið eins og minning. Við eigum tákn, skúlptúra – bækur – en minningin lifir aðeins í huganum. Ég þykist ekki þekkja manneskjuna Sylviu en ég hitti hana stundum í huganum. Sem skáld er hún vinkona mín. Brontë systurnar líka. Og ég minnist þeirra oftast heima hjá mér, og í bókahillunni minni standa mörg minnismerki um þær.