Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Blogg

Bréf frá ritstjóra – Sigurlín Bjarney til Jónu Kristjönu

Partus

Fimmtudaginn 06. október 2016 gaf Jóna Kristjana Hómgeirsdóttir út sína fyrstu ljóðabók, Skýjafar, í seríu Meðgönguljóða. Eins og aðrir höfundar sem gefa út í ritröðinni vann Jóna með ritstjóra við að undirbúa verkið til útgáfu – en ritstjóri Jónu, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, ritaði eftirfarandi bréf til skáldsins sem var lesið upp í útgáfuboði bókarinnar í Mengi.

 Jóna Kristjana í útgáfuboði ljóðabókarinnar  „ Skýjafars “.   Mynd: Þorsteinn Jónsson

Jóna Kristjana í útgáfuboði ljóðabókarinnar Skýjafars“.  Mynd: Þorsteinn Jónsson

Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifar:

Við mælum okkur mót á Stúdentakjallaranum. Ég mæti með krotuð blöð og við pöntum okkur te eða kaffi eða franskar. Síðan setjumst við niður í hálfgerðu rökkvi með rokktónlist og skvaldur allt í kring. Við leggjumst yfir blöðin og förum í gegnum krotið. Ég legg til hreinsun á ljóðmyndum, meiri rýmisskynjun og kem með tillögur að orðalagi eða viðbótum eða úrfellingum. Þetta er enginn mokstur heldur frekar eins og við séum að leita uppi rykkorn til að ýta þeim mjúklega til hliðar svo þau falli af spássíunni. Þannig ræðum við þetta fram og til baka og Jóna segist ætla að hugsa málið. Bollarnir eru tómir en skvaldrið og tónlistin enn í hæsta styrk þegar kveðjumst. Seinna leggst Jóna yfir handritið og gerir breytingar og tekur hæfilega mikið mark á mér. Sem betur fer hunsar hún oft það sem ég segi og notar jafnvel tillögur mínar til að fara aðra leið.


Þetta er enginn mokstur heldur frekar eins og við séum að leita uppi rykkorn til að ýta þeim mjúklega til hliðar svo þau falli af spássíunni.

Svo mælum við okkur mót á Stúdentakjallaranum og endurtökum leikinn og svo mælum við okkur aftur mót og svo aftur. Þannig er samstarfi okkar best lýst. Og nú er loksins komið að því að ljóðin fá að brjótast úr handriti og heimsækja fleiri staði en tölvur og Stúdentakjallara. Þetta eru tær og viðkvæm ljóð en á sama tíma ógurlega sterk og áhrifarík. Hér er engu orði ofaukið og af yfirvegaðri natni hefur Jóna skoðað þau aftur og aftur og aftur og svo einu sinni enn.

Það er fallegt að sjá hvernig Meðgönguljóð leiða saman höfunda og ritstjóra úr ólíkum áttum og styrkja þannig enn frekar þá sýn að bókaútgáfa er hópvinna. Það er heiður að fá að taka þátt í þeirri vinnu.

Núna skil ég hvers vegna sumir ánetjast því að vera ritstjórar. Að fá að standa á hliðarlínunni, kasta inn athugasemdum hér og þar og vona að maður sé ekki fyrir, að vera um fram allt á staðnum en samt ekki fyrir og fylgjast með skáldinu glíma við formið, orðin og hughrifin er einstakt. Að fá að vera með en hálfpartinn í felum og þess vegna skil ég líka þau sem ánetjast því að vera ritstjórar og vilja hvergi láta nafn síns getið. Kastljósið er ekki hluti af vinnu ritstjórans og því er mál að þegja og gefa skáldinu sviðið.

Til hamingju með daginn, kæra Jóna og þessi undurfögru ljóð! Megi þau berast sem víðast eins og skýjum er tamt.

Bestu kveðjur frá Uppsala,

Bjarney