Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Blogg

Filtering by Category: Ljóð vikunnar

Ljóð vikunnar

Partus

Tuttugu línur um borgina

eftir Braga Ólafsson

 

Heil borg
fellur ekki af himnum ofan
og fær um leið nafn eins og Höfðaborg eða Grosní.
Borg er byggð. Og byggð
er borg. Og inn í borgina
liggur gata úr óbyggðunum.
En gatan sem liggur inn í hringtorgið
er ekki í laginu eins og spurningarmerki
að ástæðulausu.
                              En hver er spurningin?
Hvað er það sem fellur ofan af himnum,
annað en snjórinn og froskarnir?
                                                       Rigningin.
En sé það rigning,
verður að vera borg til að taka á móti henni.
Og þess vegna er Reykjavík. Borgin með gleraugun
– með glerið fyrir augunum –
sem liðast í sundur undir sólinni
en kemur til sjálfs sín aftur
þegar rignir.


Tuttugu línur um borgina birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Ljóð vikunnar

Partus

Steinn

eftir Tryggva Stein Sturluson


þú snýrð baki
í himininn

á meðan ég renni fingri
yfir áletrun

og reynitrén teygja
skuggana og fölar greinar
í átt til okkar

ríghalda með rótum
í fólkið
í moldinni

heil ævi táknuð með
einu bandstriki

það er mikið lagt
á eitt greinarmerki


Steinn birtist í fyrstu ljóðabók Tryggva, Vatnsstígur, sem er væntanleg í seríu Meðgönguljóða sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

Lúr í vagninum

eftir Anton Helga Jónsson

 

Það jafnast ekkert á við lúr í vagninum.

Ég grenja þegar mamma dúðar mig niður
en sofna um leið og hún vaggar af stað.

Mamma trillar oft vagninum inn í strætó.
Önnur mamma trillar þeim vagni um borgina.
Enn önnur mamma trillar jörðinni kringum sólina.
Mamma allra mamma trillar sólkerfi út eftir vetrarbraut.

Allt þetta gerist meðan ég fæ mér lúr í vagninum.

Á meðan ég fæ mér lúr gerist líka allt hér heima.
Fjallajeppi spólar á gangstétt.
Hundamaður setur kúk í poka.

Ég veit alveg hvert við erum að fara.
Ég hef komið áður.

Bráðum verð ég þriggja mánaða
bráðum verð ég eins árs og tólf ára
bráðum fer að styttast í tvítugt og þrítugt.

Allt í einu hrekk ég upp og næsta stopp er áttrætt.

Ég þekki þessi augu sem horfa á mig. Mamma.


Ljóðið Lúr í vagninum birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Ljóð vikunnar

Partus

gefið og tekið

eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur

 

hér var eitt sinn fólk
sem skipti annað fólk máli
það átti drauma
og sinn eigin sérstaka hlátur
það átti jafnvel
lítið servíettusafn
sem það geymdi
í gömlum konfektkassa

hér voru eitt sinn konur
sem gerðu allt
fyrir alla
og lítið fyrir sig
nema að vona það besta
þegar heimili voru sköpuð
og enginn kunni að meta
eitt né neitt

hér var eitt sinn þú
ef þú værir hér nú
værir þú örugglega nýkomin úr klippingu
og ég myndi segja
vá en fínt hárið
sem þú myndir svara með
nei er það ekki svolítið skrítið
ýfa það til
og spyrja hvort ég sé
sátt þar sem ég er


Gefið og tekið birtist í fyrstu ljóðabók Díönu Sjafnar, FREYJA, sem er væntanleg til útgáfu í flokki Meðgönguljóða í febrúar 2018.

Ljóð vikunnar

Partus

Glergildra [brot]

eftir Megan Auði Grímsdóttur

 

Ég raðaði orðunum svo þú skinir sem bjartast,
gegnum reykmatta þokuna sem hékk utan á okkur.
Maður gæti séð það sem ljóðrænt að allt sé grátt í Reykjavík.
Ljóðrænt.
En ég er hætt að flækja lífinu saman við listina,
og grár fær mig til að gráta.

Ég raðaði orðunum þínum svo þú skinir og þú skín.

Skærgulur, mosagrænn,
himnablár ef ég píri augun.

En mest af öllu ertu grár.


Glergildra.jpg

Ljóðið hér að ofan er ótitlað brot úr fyrstu ljóðabók Megan, Glergildru, sem myndar eina heild og er væntanleg hjá Meðgönguljóðum sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

Ó borg

eftir Kristínu Ómarsdóttur

 

ég týni sjálfri mér eins og vasaúri
eins og kreditkorti, frumkvöðull gleymskunnar
ryður brautina í átt til: öskuhauganna
ég æfi mig í: tortímingu
                           ~
gata mín týnir mér og ég heimta
ég fer fram á: engin tengsl
klæði mig út tengslum (fyrir framan
meistara minn) á óminnisakri
                           ~
ég horfi í augu hins óþekkta
án eftirsjár og bið: týndu mér
                           ~
gata, skráðu ekki daginn þegar ég hverf úr
þessu logabjarta hverfi, gefðu máfunum
skugga minn og brauðmylsnu

eitt sinn stillti ég skriðdreka (upp í ljóði)
sem ég keypti í alþjóðlegum pöntunarlista
fyrir utan hús mitt

týndu mér, ég vil ekki: finnast


Ó borg birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Ljóð vikunnar

Partus

Tjarnargata

eftir Ingólf Eiríksson

 

Skýjabólstrar halda hver sína leið,
stöku brestir myndast
í himinskurninni.

Rauður bjarmi streymir út um sprungurnar,
hikandi eitt andartak,
síðan fossandi stórfljót
sem þekur loftið,
færir tómlátri borg
yfirnáttúrlegan blæ.

Létt gola feykir laufhrúgu
niður eftir Tjarnargötunni.

Það eru gárur á kyrrlátu vatninu,
svanir fljóta eirðarlausir í fjarska.

Með fíngerðum strengjum
dregur ágústkvöldið okkur
inn í haustkyrrðina.

Fyrsta ljóðabók Ingólfs er væntanleg í seríu Meðgönguljóða.

Ljóð vikunnar

Partus

Í gegnum garð nágranna míns

eftir Jónas Reyni Gunnarsson

Ég hef stytt mér leið í gegnum garð nágrannans svo oft að moldarslóði sker lóðina í tvennt. Á ensku eru svona stígar kallaðir desire paths. Ég er hættur að skrifa undir mikilvæg skjöl með nafni og teikna í staðinn rákina úr garði nágranna míns. Hún lýsir því betur hver ég er.

Ég hafði ekki kynnst ástarsorg fyrr en ég borðaði rabarbara úr garði nágranna míns. Þeir voru súrir en nærðu mig.

Innst í garði nágranna míns eru tvö tré. Þau standa nógu langt hvort frá öðru til að vera markstangir í fótbolta. Trén vaxa hærra með hverju ári en fjarlægðin á milli þeirra breytist aldrei.


STOREFRONT -  Leiðarvísir.jpg

Í gegnum garð nágranna míns birtist í fyrstu ljóðabók Jónasar, Leiðarvísir um þorp, sem er væntanleg til útgáfu í flokki Meðgönguljóða sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

Kyrrðarstund

eftir Berg Ebba

 

Það eru engar trommur
engir lúðrar
engin rúða brotin

Ekkert í sjónvarpinu
engar fylkingar
engir fánar

Þvílíkan frið hef ég ekki fundið lengi

Það eru tvær klukkustundir síðan ég vaknaði
Ég sit rólegur í stól
borða hrökkbrauð með kavíar
fletti bæklingi frá ferðaskrifstofu sem kom inn um lúguna

Ég finn að stríðið er hafið


Kyrrðarstund birtist í annari ljóðabók Bergs Ebba, Vertu heima á þriðjudag (Partus 2016).

Ljóð vikunnar

Partus

IX

eftir Valgerði Þóroddsdóttur

 

jafnvel hraðar en snertingin
vekur ilmurinn þann hluta af mér
sem svarar þeim hluta af þér
sem er viðvarandi
í þessari flík

ég ber klæðið að húðinni
nefinu
munninum

smeygi mér loks í fangið
á flíkinni
hneppi öllum hnöppunum
og reyni að anda í hana
lífi

minningin er löngu
samrunnin
andardrættinum
sem seytlar út um saumana

leifar okkar ekki viðvarandi
aðeins hörundið

 

IX birtist í fyrstu ljóðabók Valgerðar, Það sem áður var skógur (Partus 2015). Ljóðin í bókinni eru númeruð frá einum upp í tíu og mynda eina heild.

Ljóð vikunnar

Partus

Mundu, líkami

eftir Konstantínos Kavafís
í íslenskri þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar

 

Mundu, líkami, ekki aðeins hversu mikla ást þú vaktir,
ekki aðeins rúmin sem þú lagðist á,
heldur líka þrána sem blikaði svo skýrt
í augunum, til þín,
og titraði í röddinni – og eitthvert
óhapp gerði svo að engu.
Nú, þegar þetta er loksins allt liðin tíð,
og það er næstum eins og þú hafir
í alvöru gert það sem þú þráðir – mundu
hvernig þráin skein í augunum
sem horfðu á þig,
hvernig hún titraði í röddinni fyrir þig, mundu, líkami.


Ljóðið birtist í íslenskri þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar í samnefndu kvæðasafni, Mundu, líkami (Partus 2016).

Ljóð vikunnar

Partus

Svaðilför með tvö mölt

eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur

 

sykraðir hringstigar
kafbátar í pappírum
og bréf sem ég skil eftir í ópalrauðum póstkassa
silkihnerr frá manni sem meinar það ekki

þú þokuþæfða þorp sem þykist vera borg
með dökka mjöll á malbiki
ég anda að mér úðaregni í roki

reikul geng um götur þínar
gegnumvot í skóna

í strætó
í mjódd
í skeifu
í mjódd
á hlemm
ljósastaur og hótel og ljósastaur og hótel og hótel og hótel og hótel
rúða sem skrúfast niður
og háværir hringitónar límdir saman í lag


Svaðilför með tvö mölt birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Ljóð vikunnar

Partus

Lækjadúr

eftir Ragnheiði Erlu

ég hélt að ég væri vakandi
einhvern tímann
þegar ég lá og þóttist sofandi
og þú ráfaðir í gegnum herbergið 
því þér fannst húsið mitt svo
rafmagnslaust, 
í síðasta sinn
áður en þú fórst burt af þessari eyju, 
þessi pínulitla eyja
sem þú eignar alltaf mér
já og ég er ennþá hér
með sandinn á milli tannanna
kannski næstum því alveg við það 
að vera glaðvakandi
því rétt áður en þú fórst
sagðiru mér að hann snjóaði
svo hvernig get ég sofið 
á snjóandi eyju, vitandi af þér
ráfandi um heiminn
eigandi heima, heima hjá mér.

Ljóð vikunnar

Partus

Sér á báti

eftir Elfi Sunnu Baldursdóttur

lít niður á þokuna
sem þrýstist upp
á milli tánna

seig muggan
smýgur inn um eyrun
gælir við heilahvelin
deyfir

í þörmunum hringa sig ormar
nærast á sönsum
kitla úfinn

erting
hvítt hold
í tætara
harmdöggin
seig
hlykkjast um
hrukkur

raust sem
skellur
útflatt andlit
afmyndað

andköf

kraftmikil alda
             kúvending


Sér á báti mun birtast í fyrstu ljóðabók Elfar, Gárur (Partus 2017).

.

Ljóð vikunnar

Partus

Leikfimi

eftir Steinunni Lilju Emilsdóttur

Það bergmálar í íþróttahúsinu. Hvell hljóðin skella á andlitinu eins og sveittur blakbolti. Bekkirnir upp við veggina eru tómir. Háglansandi völlurinn speglar neonljósin úr loftinu. Ég skil ekki marglituðu línurnar á gólfinu.

Við hlaupum hring eftir hring í þvögu. Ég finn hvernig ég dregst smám saman aftur úr þangað til fremsti maður tekur framúr mér. Ég hægi á mér og sameinast stærstu þvögunni. Ég skulda einn hring.

Inni á klósetti er lítill vaskur. Ég hef séð fólk hlaupa sveitt að þessum vaski og svolgra vatnið þangað til taumar myndast framan á bolnum þeirra. Ég skrúfa frá krananum og bý til eins tauma með fingrunum.

Undir flísalagða stiganum er lítið þríhyrningslaga skot sem hægt er að fela sig í. Ég fer inn í skotið og stoppa þegar ennið nemur við hallandi vegginn. Ég er jafnstór og í fyrra. Ég er líklega fullvaxin.