Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Blogg

Filtering by Category: Meðgönguljóð

Bréf frá ritstjóra – Þórdís Gísla til Guðrúnar Heiðar

Partus

Sunnudaginn 03. september 2017 gaf Guðrún Heiður Ísaksdóttir út ljóðabókina Mörufeldur, móðurhamur, í flokki Meðgönguljóða. Eins og aðrir höfundar sem gefa út í ritröðinni vann Guðrún með ritstjóra við að undirbúa verkið til útgáfu – en ritstjóri Guðrúnar, Þórdís Gísladóttir, var stödd erlendis við útgáfu bókarinnar í Mengi og skrifaði því eftirfarandi bréf sem var flutt í boðinu.

Þórdís Gísladóttir skrifar:


Heiðraða útgáfupartý!

Í byrjun síðasta árs gaukaði Kristín Svava að mér handriti eftir Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur og spurði hvort ég væri til í að lesa það og íhuga hvort ég gæti hugsað mér að vinna efnið með höfundinum, sem ritstjóri, svo úr yrði Meðgönguljóðabók. Ég renndi yfir textana og féll strax fyrir handritinu. Sem kona með mikið tískuvit og næmi á strauma tímans sá ég strax að þarna væri kominn vísir að ritverki sem svaraði kalli samtímans; höfundur vinnur með þjóðararfinn og endurnýjar hann á nútímalegan hátt – sem er mjög mikið í tísku um þessar mundir – Guðrún Heiður notar eina af elstu Íslendingasögunum sem efnivið til endurvinnslu og eins og við vitum öll er endurvinnsla gríðarlega mikið í umræðunni nú um stundir og allir sammála um að endurvinnsla sé þjóðþrifamál. 

1. kafli Heiðarvíga sögu hljóðar svona: 

Atli stóð í dyrum úti og var hann veginn af manni nokkrum sem deildi við hann af einum langási. Reiddi hann burt ásinn. Þar með endaðist sá capituli. 

Þarna var sem sagt einhver óþekktur Atli drepinn og víg hans afgreitt á vægast sagt stuttaralegan hátt: þar með endaðist sá kapítuli. Í textunum sínum notar Guðrún Heiður þetta grátbroslega stef úr einni af elstu Íslendingasögunum á frumlegan og persónulegan hátt, í rauninni má alveg halda því fram að hún hafi fundið upp nýja bókmenntategund. Og nú eru þessir textar komnir út í bókinni Mörufeldur, móðurharmur.

Í Mörufeldi, móðurharmi eru margar heillandi pælingar og ferskur og dálítið hrár tónn sem náði mér strax við fyrsta lestur. Ég sá að þetta gæti orðið frábær bók með dálítilli viðbótarvinnu. Í vinnslu tók handritið nokkrum breytingum. Um tíma varð það að efniviði í einstaklingsnámskeið við Háskóla Íslands og þá þurfti að straumlínulaga textana og skrifa lærðan inngang. Háskólakennarar eru örlítið rúðustrikaðir og gera kröfur um ákveðin vinnubrögð, við þeim kröfum þurfti að bregðast og það gerði höfundurinn fúslega og af listrænu næmi. En þegar kom að sjálfri útgáfunni tók Guðrún Heiður smá snúning til baka og ákvað að nota aðeins hrárri handritsútgáfu en þá sem skilað var sem háskólaverkefni. Þessu má kannski líkja við það þegar tónskáld semur lag og útsetur fyrir mörg hljóðfæri en snýr sér síðan aftur að því að spila lagið á kassagítar því stundum hljómar það hráa og einfaldara bara betur. 

Ég er þakklát forsvarsmönnum Meðgönguljóða fyrir að hafa fengið mig til að taka þátt í meðgöngu og fæðingu bókar Guðrúnar Heiðar og sendi bestu hamingjuóskir til hennar og annarra meðgönguljóðskálda sem fagna útkomu bóka sinna í dag.

 Guðrún Heiður Ísaksdóttir í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Mörufeldur, móðurhamur“ í Mengi. Mynd: Hallgrímur Helgason

Guðrún Heiður Ísaksdóttir í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Mörufeldur, móðurhamur“ í Mengi.
Mynd: Hallgrímur Helgason


Meðgönguljóð nr. 25: „Vatnsstígur“

Partus

                                                                                                                       Mynd: © Partus / Gulli Már

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

Tryggvi Steinn Sturluson er höfundur 25. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Vatnsstígur er fyrsta ljóðabók Tryggva sem starfar sem bóksali í Hafnarfirði.

ég elti þig inn
á milli svartra veggja

heimurinn undarlega hljóður
bakvið rokið

Í tregafullum ljóðum Tryggva Steins eru ljós og skuggar á sífelldri hreyfingu á meðan konan á efri hæðinni dansar hægt um gólfið á háum hælum. Vatnsstígur er smálegt ljóðverk sem læðist út úr haustmyrkrinu. Það fjallar um ástir sem renna út í sandinn og leiðir fólks inn í skugga og út úr þeim. Ljóðin takast, í örfáum línum, á við mismerkilegar hugmyndir og tilfinningar á borð við missi og vonleysi, einmanaleika og einangrun, fyrringu, fortíðarþrá, von, sátt og tregagleði. Höfundur dregur upp draumverulegar myndir sem miðla látlausri innri fegurð í gegnum myrkur og kulda. Vatnsstígur hentar vel til lestrar á bakvið regn og skítugar gluggarúður með ylinn í bakið.

Bókin kemur út á sunnudaginn 3. september og verður útgáfu fagnað í Mengi kl. 17:00. Henni var ritstýrt af Hallgrími Helgasyni.

vatnsstigur-partus

Meðgönguljóð nr. 24: „Mörufeldur, móðurhamur“

Partus

                                                                                                                      Mynd: © Partus / Gulli Már

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

Guðrún Heiður Ísaksdóttir er höfundur 24. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Mörufeldur, móðurhamur er fyrsta ljóðabók Guðrúnar sem starfar sem myndlistarmaður í Reykjavík.

Leiðarstef Guðrúnar í bókinni er setning úr upprifjun Jóns Grunnvíkings af fyrsta kafla Heiðarvíga sögu, sem glataðist í eldi. Þannig gefur hún til kynna að ljóðverkið sé samansafn ótengdra brota úr hálfgleymdri ævi.
 

Bókin kemur út á sunnudaginn 3. september og verður útgáfu fagnað í Mengi kl. 17:00. Henni var ritstýrt af Þórdísi Gísladóttur.

Meðgönguljóð nr. 23: „Leiðarvísir um þorp“

Partus

                                                                                                                 Mynd: © Partus  / Gulli Már

                                                                                                                Mynd: © Partus / Gulli Már

Jónas Reynir Gunnarsson er höfundur 23. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Leiðarvísir um þorp er fyrsta ljóðabók Jónasar Reynis sem starfar sem rithöfundur.

Í bókinni er að finna leiðbeiningar um staði, tímabil, manneskjur og minningar. Leiðbeinandinn stendur í mýri, eltir blaðbera og styttir sér leið í gegnum garð nágrannans, áður en hann vísar loks lesandanum aftur heim. En þorpið hefur áhrif á þá sem heimsækja það – og gestirnir hafa áhrif á þorpið.

Bókin kemur út á sunnudaginn 3. september og verður útgáfu fagnað í Mengi kl. 17:00. Bókin hlaut styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands. Henni var ritstýrt af Þórði Sævari Jónssyni.

Meðgönguljóð nr. 22: „Glergildra“

Partus

                                                                                                                      Mynd: © Partus / Gulli Már

                                                                                                                     Mynd: © Partus / Gulli Már

Megan Auður Grímsdóttir er höfundur Glergildru – 22. bókar í seríu Meðgönguljóða, bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Glergildra er fyrsta ljóðabók Megan Auðar sem stundar myndlistarnám í Hollandi.

Megan teiknar upp hráa og nákvæma mynd af Reykjavík þar sem ljóðmælandi tekst á við innri þunga í eilífri leit að stundarlétti.

Bókin kom út 15. ágúst 2017. Kristín Svava Tómasdóttir ritstýrði verkinu.

Ljóð vikunnar

Partus

Steinn

eftir Tryggva Stein Sturluson


þú snýrð baki
í himininn

á meðan ég renni fingri
yfir áletrun

og reynitrén teygja
skuggana og fölar greinar
í átt til okkar

ríghalda með rótum
í fólkið
í moldinni

heil ævi táknuð með
einu bandstriki

það er mikið lagt
á eitt greinarmerki


Steinn birtist í fyrstu ljóðabók Tryggva, Vatnsstígur, sem er væntanleg í seríu Meðgönguljóða sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

gefið og tekið

eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur

 

hér var eitt sinn fólk
sem skipti annað fólk máli
það átti drauma
og sinn eigin sérstaka hlátur
það átti jafnvel
lítið servíettusafn
sem það geymdi
í gömlum konfektkassa

hér voru eitt sinn konur
sem gerðu allt
fyrir alla
og lítið fyrir sig
nema að vona það besta
þegar heimili voru sköpuð
og enginn kunni að meta
eitt né neitt

hér var eitt sinn þú
ef þú værir hér nú
værir þú örugglega nýkomin úr klippingu
og ég myndi segja
vá en fínt hárið
sem þú myndir svara með
nei er það ekki svolítið skrítið
ýfa það til
og spyrja hvort ég sé
sátt þar sem ég er


Gefið og tekið birtist í fyrstu ljóðabók Díönu Sjafnar, FREYJA, sem er væntanleg til útgáfu í flokki Meðgönguljóða í febrúar 2018.

Ljóð vikunnar

Partus

Glergildra [brot]

eftir Megan Auði Grímsdóttur

 

Ég raðaði orðunum svo þú skinir sem bjartast,
gegnum reykmatta þokuna sem hékk utan á okkur.
Maður gæti séð það sem ljóðrænt að allt sé grátt í Reykjavík.
Ljóðrænt.
En ég er hætt að flækja lífinu saman við listina,
og grár fær mig til að gráta.

Ég raðaði orðunum þínum svo þú skinir og þú skín.

Skærgulur, mosagrænn,
himnablár ef ég píri augun.

En mest af öllu ertu grár.


Glergildra.jpg

Ljóðið hér að ofan er ótitlað brot úr fyrstu ljóðabók Megan, Glergildru, sem myndar eina heild og er væntanleg hjá Meðgönguljóðum sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

Tjarnargata

eftir Ingólf Eiríksson

 

Skýjabólstrar halda hver sína leið,
stöku brestir myndast
í himinskurninni.

Rauður bjarmi streymir út um sprungurnar,
hikandi eitt andartak,
síðan fossandi stórfljót
sem þekur loftið,
færir tómlátri borg
yfirnáttúrlegan blæ.

Létt gola feykir laufhrúgu
niður eftir Tjarnargötunni.

Það eru gárur á kyrrlátu vatninu,
svanir fljóta eirðarlausir í fjarska.

Með fíngerðum strengjum
dregur ágústkvöldið okkur
inn í haustkyrrðina.

Fyrsta ljóðabók Ingólfs er væntanleg í seríu Meðgönguljóða.

Ljóð vikunnar

Partus

Í gegnum garð nágranna míns

eftir Jónas Reyni Gunnarsson

Ég hef stytt mér leið í gegnum garð nágrannans svo oft að moldarslóði sker lóðina í tvennt. Á ensku eru svona stígar kallaðir desire paths. Ég er hættur að skrifa undir mikilvæg skjöl með nafni og teikna í staðinn rákina úr garði nágranna míns. Hún lýsir því betur hver ég er.

Ég hafði ekki kynnst ástarsorg fyrr en ég borðaði rabarbara úr garði nágranna míns. Þeir voru súrir en nærðu mig.

Innst í garði nágranna míns eru tvö tré. Þau standa nógu langt hvort frá öðru til að vera markstangir í fótbolta. Trén vaxa hærra með hverju ári en fjarlægðin á milli þeirra breytist aldrei.


STOREFRONT - Leiðarvísir.jpg

Í gegnum garð nágranna míns birtist í fyrstu ljóðabók Jónasar, Leiðarvísir um þorp, sem er væntanleg til útgáfu í flokki Meðgönguljóða sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

Kyrrðarstund

eftir Berg Ebba

 

Það eru engar trommur
engir lúðrar
engin rúða brotin

Ekkert í sjónvarpinu
engar fylkingar
engir fánar

Þvílíkan frið hef ég ekki fundið lengi

Það eru tvær klukkustundir síðan ég vaknaði
Ég sit rólegur í stól
borða hrökkbrauð með kavíar
fletti bæklingi frá ferðaskrifstofu sem kom inn um lúguna

Ég finn að stríðið er hafið


Kyrrðarstund birtist í annari ljóðabók Bergs Ebba, Vertu heima á þriðjudag (Partus 2016).

Ljóð vikunnar

Partus

Sér á báti

eftir Elfi Sunnu Baldursdóttur

lít niður á þokuna
sem þrýstist upp
á milli tánna

seig muggan
smýgur inn um eyrun
gælir við heilahvelin
deyfir

í þörmunum hringa sig ormar
nærast á sönsum
kitla úfinn

erting
hvítt hold
í tætara
harmdöggin
seig
hlykkjast um
hrukkur

raust sem
skellur
útflatt andlit
afmyndað

andköf

kraftmikil alda
             kúvending


Sér á báti mun birtast í fyrstu ljóðabók Elfar, Gárur (Partus 2017).

.

Meðgönguljóð nr. 21: „Bleikrými“

Partus

                                                                                                                                  ©  Partus / Gulli Már

                                                                                                                                © Partus / Gulli Már

Solveig Thoroddsen er höfundur 21. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Bleikrými er fyrsta ljóðabók Solveigar sem starfar sem myndlistarmaður, grunnskólakennari og leiðsögumaður.

Eins og aðrar bækur í seríu Meðgönguljóða er Bleikrými prentuð í takmörkuðu upplagi. Bókin kemur út á miðvikudaginn 8. mars 2017. Kristín Svava Tómasdóttir ritstýrði verkinu.

Meðgönguljóð nr. 20: „Gárur“

Partus

                                                                                                                                  ©  Partus / Gulli Már

                                                                                                                                © Partus / Gulli Már

Elfur Sunna Baldursdóttir er höfundur 20. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Gárur er fyrsta ljóðabók Elfar Sunnu sem lauk nýlega 7. stigi í klassískum söng frá Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Eins og aðrar bækur í seríu Meðgönguljóða er Gárur prentuð í takmörkuðu upplagi. Bókin kemur út á miðvikudaginn 8. mars 2017. Kristín Ómarsdóttir ritstýrði verkinu.

Útgáfuskrá 2016

Partus

Við kynnum útgáfuskrá Partusar árið 2016!

Smellið á myndina hér til vinstri til að sjá upplýsingar um þær fjórtán bækur sem komu út hjá forlaginu á stórárinu tvöþúsund og sextán!

Bréf frá ritstjóra – Halldóra K. til Bergs Ebba

Partus

Fimmtudaginn 06. október 2016 gaf Bergur Ebbi út ljóðabókina Vertu heima á þriðjudag, í seríu Meðgönguljóða. Eins og aðrir höfundar sem gefa út í ritröðinni vann Bergur með ritstjóra við að undirbúa verkið til útgáfu – en ritstjóri Bergs, Halldóra K. Thoroddsen, flutti eftirfarandi ræðu við tilefni útgáfu bókarinnar í Mengi.

 Bergur Ebbi Benediktsson í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Vertu heima á þriðjudag“. Mynd: Þorsteinn Jónsson

Bergur Ebbi Benediktsson í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Vertu heima á þriðjudag“. Mynd: Þorsteinn Jónsson

Halldóra K. Thoroddsen skrifar:

Það voru Meðgönguljóð sem komu á þessu deiti okkar Bergs Ebba. Kannski vildu þau brúa kynslóðahyldýpið sem skilur okkur að. Alla vega hlýtur Bergi að hafa brugðið þegar risaeðlan fattaði til dæmis ekki tilvísun í chat, eða yfir höfuð tilvísanir í nýjungar sem hafa borist okkur með vorskipunum eftir síðustu aldamót.

En þetta var gaman. Ég hef fylgst með hugmyndum yddast og get ekki þakkað mér neinn þátt í því ferli nema þátt hins nauðsynlega móttakara. Bergur Ebbi er sögumaður. Hann setur sig ýmist í spor eða lýsir utan frá. Undir sögunum dunar rafmagnað andrúmsloft, ótti, ofbeldi og helsi en líka samkennd og hugljómun. Hann segir sögur af undiröldunni.

Sprengjuvargurinn í skólanum og fleiri ofbeldismenn sem við heyrum af í fréttum fá rödd … og rúm fyrir ótta sinn og þrár. Brugðið er upp mynd af kórónu sköpunarverksins, manninum … á fjallstoppi umkringdum froðu, alsælum og blinduðum. Tíðarandi er fangaður meðal annars í lýsingu á áttavilltum krökkum í stórborg. Fulltrúar ímyndunaraflsins eru hér á ferð eins og í öðrum þjóðsögum, uppvakningar eða zombíar. Og strákur verður fyrir uppljómun á leið úr sundi, nær sambandi við alheiminn,  steinsteypan opnar sig og allt er eitt …

Þegar hægist um og allt er hljótt hlýtur það bara að merkja eitt … að stríðið sé skollið á.

,,Við eigum bara þennan endalausa dag” segir skáldið. En undir þeim degi slær miskunarlaus taktur lífsins sem Bergur Ebbi fangar af næmri telepatíu.

 Halldóra K. Thoroddsen flutti erindi í útgáfuboði ljóðabókarinnar „Vertu heima á þriðjudag“. Mynd: Þorsteinn Jónsson

Halldóra K. Thoroddsen flutti erindi í útgáfuboði ljóðabókarinnar „Vertu heima á þriðjudag“. Mynd: Þorsteinn Jónsson