Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Blogg

Ljóð vikunnar

Partus

Í gegnum garð nágranna míns

eftir Jónas Reyni Gunnarsson

Ég hef stytt mér leið í gegnum garð nágrannans svo oft að moldarslóði sker lóðina í tvennt. Á ensku eru svona stígar kallaðir desire paths. Ég er hættur að skrifa undir mikilvæg skjöl með nafni og teikna í staðinn rákina úr garði nágranna míns. Hún lýsir því betur hver ég er.

Ég hafði ekki kynnst ástarsorg fyrr en ég borðaði rabarbara úr garði nágranna míns. Þeir voru súrir en nærðu mig.

Innst í garði nágranna míns eru tvö tré. Þau standa nógu langt hvort frá öðru til að vera markstangir í fótbolta. Trén vaxa hærra með hverju ári en fjarlægðin á milli þeirra breytist aldrei.


STOREFRONT -  Leiðarvísir.jpg

Í gegnum garð nágranna míns birtist í fyrstu ljóðabók Jónasar, Leiðarvísir um þorp, sem er væntanleg til útgáfu í flokki Meðgönguljóða sumarið 2017.

Ljóð vikunnar

Partus

Kyrrðarstund

eftir Berg Ebba

 

Það eru engar trommur
engir lúðrar
engin rúða brotin

Ekkert í sjónvarpinu
engar fylkingar
engir fánar

Þvílíkan frið hef ég ekki fundið lengi

Það eru tvær klukkustundir síðan ég vaknaði
Ég sit rólegur í stól
borða hrökkbrauð með kavíar
fletti bæklingi frá ferðaskrifstofu sem kom inn um lúguna

Ég finn að stríðið er hafið


Kyrrðarstund birtist í annari ljóðabók Bergs Ebba, Vertu heima á þriðjudag (Partus 2016).

Ljóð vikunnar

Partus

IX

eftir Valgerði Þóroddsdóttur

 

jafnvel hraðar en snertingin
vekur ilmurinn þann hluta af mér
sem svarar þeim hluta af þér
sem er viðvarandi
í þessari flík

ég ber klæðið að húðinni
nefinu
munninum

smeygi mér loks í fangið
á flíkinni
hneppi öllum hnöppunum
og reyni að anda í hana
lífi

minningin er löngu
samrunnin
andardrættinum
sem seytlar út um saumana

leifar okkar ekki viðvarandi
aðeins hörundið

 

IX birtist í fyrstu ljóðabók Valgerðar, Það sem áður var skógur (Partus 2015). Ljóðin í bókinni eru númeruð frá einum upp í tíu og mynda eina heild.

Ljóð vikunnar

Partus

Mundu, líkami

eftir Konstantínos Kavafís
í íslenskri þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar

 

Mundu, líkami, ekki aðeins hversu mikla ást þú vaktir,
ekki aðeins rúmin sem þú lagðist á,
heldur líka þrána sem blikaði svo skýrt
í augunum, til þín,
og titraði í röddinni – og eitthvert
óhapp gerði svo að engu.
Nú, þegar þetta er loksins allt liðin tíð,
og það er næstum eins og þú hafir
í alvöru gert það sem þú þráðir – mundu
hvernig þráin skein í augunum
sem horfðu á þig,
hvernig hún titraði í röddinni fyrir þig, mundu, líkami.


Ljóðið birtist í íslenskri þýðingu Þorsteins Vilhjálmssonar í samnefndu kvæðasafni, Mundu, líkami (Partus 2016).

Ljóð vikunnar

Partus

Svaðilför með tvö mölt

eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur

 

sykraðir hringstigar
kafbátar í pappírum
og bréf sem ég skil eftir í ópalrauðum póstkassa
silkihnerr frá manni sem meinar það ekki

þú þokuþæfða þorp sem þykist vera borg
með dökka mjöll á malbiki
ég anda að mér úðaregni í roki

reikul geng um götur þínar
gegnumvot í skóna

í strætó
í mjódd
í skeifu
í mjódd
á hlemm
ljósastaur og hótel og ljósastaur og hótel og hótel og hótel og hótel
rúða sem skrúfast niður
og háværir hringitónar límdir saman í lag


Svaðilför með tvö mölt birtist fyrst í kvæðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík (Partus 2013).

Ljóð vikunnar

Partus

Lækjadúr

eftir Ragnheiði Erlu

ég hélt að ég væri vakandi
einhvern tímann
þegar ég lá og þóttist sofandi
og þú ráfaðir í gegnum herbergið 
því þér fannst húsið mitt svo
rafmagnslaust, 
í síðasta sinn
áður en þú fórst burt af þessari eyju, 
þessi pínulitla eyja
sem þú eignar alltaf mér
já og ég er ennþá hér
með sandinn á milli tannanna
kannski næstum því alveg við það 
að vera glaðvakandi
því rétt áður en þú fórst
sagðiru mér að hann snjóaði
svo hvernig get ég sofið 
á snjóandi eyju, vitandi af þér
ráfandi um heiminn
eigandi heima, heima hjá mér.

Þýðingar Þorsteins í Kiljunni

Partus

Þorsteinn Vilhjálmsson var í viðtali í Kiljunni á miðvikudagskvöldið 08. mars þar sem hann ræddi þýðingar sínar á grískum og latneskum ljóðum eftir margvíslega höfunda sem mynda kvæðasafnið Mundu, líkami (Partus 2016).

Ljóðin fjalla um ást, þrá, hatur og háttsemi og eru til skiptis kostulega framandi og óhugnanlega kunnugleg. Ljóðin hafa flest verið ritskoðuð á einn eða annan hátt í gegnum tíðina fyrir samkynja ástir eða groddalegt myndmál. Þau hafa því fæst verið þýdd á íslensku áður. Hér að neðan má sjá brot úr þættinum þar sem Þorsteinn kemur fram.

Ljóð vikunnar

Partus

Sér á báti

eftir Elfi Sunnu Baldursdóttur

lít niður á þokuna
sem þrýstist upp
á milli tánna

seig muggan
smýgur inn um eyrun
gælir við heilahvelin
deyfir

í þörmunum hringa sig ormar
nærast á sönsum
kitla úfinn

erting
hvítt hold
í tætara
harmdöggin
seig
hlykkjast um
hrukkur

raust sem
skellur
útflatt andlit
afmyndað

andköf

kraftmikil alda
             kúvending


Sér á báti mun birtast í fyrstu ljóðabók Elfar, Gárur (Partus 2017).

.

Meðgönguljóð nr. 21: „Bleikrými“

Partus

                                                                                                                                    ©   Partus  / Gulli Már

                                                                                                                                © Partus / Gulli Már

Solveig Thoroddsen er höfundur 21. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Bleikrými er fyrsta ljóðabók Solveigar sem starfar sem myndlistarmaður, grunnskólakennari og leiðsögumaður.

Eins og aðrar bækur í seríu Meðgönguljóða er Bleikrými prentuð í takmörkuðu upplagi. Bókin kemur út á miðvikudaginn 8. mars 2017. Kristín Svava Tómasdóttir ritstýrði verkinu.

Meðgönguljóð nr. 20: „Gárur“

Partus

                                                                                                                                    ©   Partus  / Gulli Már

                                                                                                                                © Partus / Gulli Már

Elfur Sunna Baldursdóttir er höfundur 20. bókar í seríu Meðgönguljóða – bókaflokki Partusar helguðum nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Gárur er fyrsta ljóðabók Elfar Sunnu sem lauk nýlega 7. stigi í klassískum söng frá Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Eins og aðrar bækur í seríu Meðgönguljóða er Gárur prentuð í takmörkuðu upplagi. Bókin kemur út á miðvikudaginn 8. mars 2017. Kristín Ómarsdóttir ritstýrði verkinu.

Útgáfuskrá 2016

Partus

Við kynnum útgáfuskrá Partusar árið 2016!

Smellið á myndina hér til vinstri til að sjá upplýsingar um þær fjórtán bækur sem komu út hjá forlaginu á stórárinu tvöþúsund og sextán!

Ljóð vikunnar

Partus

Leikfimi

eftir Steinunni Lilju Emilsdóttur

Það bergmálar í íþróttahúsinu. Hvell hljóðin skella á andlitinu eins og sveittur blakbolti. Bekkirnir upp við veggina eru tómir. Háglansandi völlurinn speglar neonljósin úr loftinu. Ég skil ekki marglituðu línurnar á gólfinu.

Við hlaupum hring eftir hring í þvögu. Ég finn hvernig ég dregst smám saman aftur úr þangað til fremsti maður tekur framúr mér. Ég hægi á mér og sameinast stærstu þvögunni. Ég skulda einn hring.

Inni á klósetti er lítill vaskur. Ég hef séð fólk hlaupa sveitt að þessum vaski og svolgra vatnið þangað til taumar myndast framan á bolnum þeirra. Ég skrúfa frá krananum og bý til eins tauma með fingrunum.

Undir flísalagða stiganum er lítið þríhyrningslaga skot sem hægt er að fela sig í. Ég fer inn í skotið og stoppa þegar ennið nemur við hallandi vegginn. Ég er jafnstór og í fyrra. Ég er líklega fullvaxin.

Ásta Fanney hlýtur Ljóðstaf Jóns úr vör

Partus

Ásta Fanney Sigurðardóttir hefur hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör í ár fyrir ljóð sitt „Silkileið nr. 17“  á 100 ára fæðing­araf­mæli Jóns. Sögur segja að verðlaunaljóð Ástu hafi verið samið á og skilað inn á kvittun.

 
 

Silki­leið nr. 17

þú breytt­ir mér óvart í vet­ur
og hélst ég væri planta (og sól og ský)
sem vökvaði sjálfa sig með snjó
og geymd­ir mig í brjóst­vasa í krukku með mold
og úr lauf­un­um láku silki­leiðir í gegn­um saum­ana
að tölu sem ég þræddi eitt sinn með hári
ég ferðast þaðan á hraða úlf­alda
því ann­ars verður sál­in eft­ir segja ar­ab­ar
í eyðimörk skyrtu þinn­ar
(sem minn­ir á hand­klæði)
er ég týnd í sveit milli sanda
of ná­lægt
til að geta aðskilið
jörð og skinn
svo ég skauta bara hér
þar til vor­ar

Dóm­nefnd­in – sem skipuð var af Antoni Helga Jónssyni (formanni), Ásdísi Óladóttur og Bjarna Bjarnasyni – hafði þetta að segja um ljóð Ástu sem var valið úr hátt í þrjú hundruð ljóðum sem bárust í keppnina:

„Umbreyt­ing­ar ein­kenna verðlaunaljóðið; það kall­ar fram í hug­an­um mynd­ir af nánd og ná­lægð en um leið af fjarska og fjar­lægð. Ljóðið virðist fjalla um sam­skipti tveggja ein­stak­linga en um leið teng­ir það sam­an gamla og nýja tíma og ólíka menn­ing­ar­heima. Það er ró og æðru­leysi í rödd þeirr­ar sem tal­ar í ljóðinu og samt er engu lík­ara en úr orðunum verði til kvik­mynd með hröðum klipp­ing­um. Það er farið hratt milli sviða frá snjó og vetri og þröngu sjón­ar­horni á plöntu í krukku og þaðan yfir í stærri heim með vís­un­um til teng­inga við Aust­ur­lönd fjær og eyðimerk­ur í Mið-Aust­ur­lönd­um uns snúið er aft­ur til ein­angraðrar sveit­ar og vet­urs á Íslandi. Verðlaunaljóðið er gott dæmi um sköp­un­ar­mátt­inn sem býr í mál­inu og skáld­skapn­um og sýn­ir vel hvað eitt lítið ljóð get­ur rúmað stór­an heim og opnað marg­ar leiðir til túlk­un­ar.“
  Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í viðtali nokkrum dögum fyrir verðlaunaafhendinguna ræddi Ásta Fanney við DV um listsköpun sína, ljóðlist og gjörninga, og sagði meðal annars:

„Í hvert skipti sem maður notar orð er maður að spinna eins og kónguló, spinna vef í loftinu, spinna alls konar fína hluti úr orðunum. En orð er líka eins og steinn sem hent er ofan í vatn og myndar gárur. Orð hafa byltandi áhrif á allt, á líf fólks. Þau fara í gegnum mann og hafa áhrif, í gegnum skinnið, kjötið, gegnum beinin, verða að hugsunum og móta það hvernig maður sér heiminn. Orð eru svo miklir töfrar! En töfrarnir felast ekki einungis í því sem þú segir, heldur líka í því hvernig þú segir það, í hvaða samhengi, hvar, við hvern og svo framvegis. Þess vegna er ‚performansinn,’ gjörningurinn, svo mikilvægur hluti af ljóðinu.“

Ásta Fanney hefur áður gefið út eina ljóðabók, Herra Hjúkket, í ljóðaseríu Partusar. Hér er hægt að sjá myndband af Ástu lesa ljóð úr þeirri bók.