Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Blogg

Bréf frá ritstjóra – Þórdís Gísla til Guðrúnar Heiðar

Partus

Sunnudaginn 03. september 2017 gaf Guðrún Heiður Ísaksdóttir út ljóðabókina Mörufeldur, móðurhamur, í flokki Meðgönguljóða. Eins og aðrir höfundar sem gefa út í ritröðinni vann Guðrún með ritstjóra við að undirbúa verkið til útgáfu – en ritstjóri Guðrúnar, Þórdís Gísladóttir, var stödd erlendis við útgáfu bókarinnar í Mengi og skrifaði því eftirfarandi bréf sem var flutt í boðinu.

Þórdís Gísladóttir skrifar:


Heiðraða útgáfupartý!

Í byrjun síðasta árs gaukaði Kristín Svava að mér handriti eftir Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur og spurði hvort ég væri til í að lesa það og íhuga hvort ég gæti hugsað mér að vinna efnið með höfundinum, sem ritstjóri, svo úr yrði Meðgönguljóðabók. Ég renndi yfir textana og féll strax fyrir handritinu. Sem kona með mikið tískuvit og næmi á strauma tímans sá ég strax að þarna væri kominn vísir að ritverki sem svaraði kalli samtímans; höfundur vinnur með þjóðararfinn og endurnýjar hann á nútímalegan hátt – sem er mjög mikið í tísku um þessar mundir – Guðrún Heiður notar eina af elstu Íslendingasögunum sem efnivið til endurvinnslu og eins og við vitum öll er endurvinnsla gríðarlega mikið í umræðunni nú um stundir og allir sammála um að endurvinnsla sé þjóðþrifamál. 

1. kafli Heiðarvíga sögu hljóðar svona: 

Atli stóð í dyrum úti og var hann veginn af manni nokkrum sem deildi við hann af einum langási. Reiddi hann burt ásinn. Þar með endaðist sá capituli. 

Þarna var sem sagt einhver óþekktur Atli drepinn og víg hans afgreitt á vægast sagt stuttaralegan hátt: þar með endaðist sá kapítuli. Í textunum sínum notar Guðrún Heiður þetta grátbroslega stef úr einni af elstu Íslendingasögunum á frumlegan og persónulegan hátt, í rauninni má alveg halda því fram að hún hafi fundið upp nýja bókmenntategund. Og nú eru þessir textar komnir út í bókinni Mörufeldur, móðurharmur.

Í Mörufeldi, móðurharmi eru margar heillandi pælingar og ferskur og dálítið hrár tónn sem náði mér strax við fyrsta lestur. Ég sá að þetta gæti orðið frábær bók með dálítilli viðbótarvinnu. Í vinnslu tók handritið nokkrum breytingum. Um tíma varð það að efniviði í einstaklingsnámskeið við Háskóla Íslands og þá þurfti að straumlínulaga textana og skrifa lærðan inngang. Háskólakennarar eru örlítið rúðustrikaðir og gera kröfur um ákveðin vinnubrögð, við þeim kröfum þurfti að bregðast og það gerði höfundurinn fúslega og af listrænu næmi. En þegar kom að sjálfri útgáfunni tók Guðrún Heiður smá snúning til baka og ákvað að nota aðeins hrárri handritsútgáfu en þá sem skilað var sem háskólaverkefni. Þessu má kannski líkja við það þegar tónskáld semur lag og útsetur fyrir mörg hljóðfæri en snýr sér síðan aftur að því að spila lagið á kassagítar því stundum hljómar það hráa og einfaldara bara betur. 

Ég er þakklát forsvarsmönnum Meðgönguljóða fyrir að hafa fengið mig til að taka þátt í meðgöngu og fæðingu bókar Guðrúnar Heiðar og sendi bestu hamingjuóskir til hennar og annarra meðgönguljóðskálda sem fagna útkomu bóka sinna í dag.

 Guðrún Heiður Ísaksdóttir í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Mörufeldur, móðurhamur“ í Mengi. Mynd: Hallgrímur Helgason

Guðrún Heiður Ísaksdóttir í útgáfuboði ljóðabókar sinnar „Mörufeldur, móðurhamur“ í Mengi.
Mynd: Hallgrímur Helgason