Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Blogg

Hús skáldanna

Partus

  Seamus Heaney sem maður og barn, í HomePlace í Bellaghy.  Mynd © Pól Ó Conghaile

Seamus Heaney sem maður og barn, í HomePlace í Bellaghy. Mynd © Pól Ó Conghaile

Valgerður Þóroddsdóttir skrifar:

Í smábænum Bellaghy á Norður-Írlandi var nýlega reist safn og samkomustaður til heiðurs skáldsins Seamus heitins Heaney. Skammt frá bóndabýlinu þar sem Nóbelskáldið fæddist árið 1939 stendur þetta tilkomumikla minnismerki um líf hans og verk – HomePlace.

Hvað umfang og kostnað varðar er áhugavert að staldra við þá staðreynd að þetta stórvirki var reist til heiðurs skálds – við erum að tala um mann sem skrifaði einungis ljóð. Ég veit að flestar þjóðir kunna (út á við) að bera mikla virðingu fyrir skáldum sínum (sérstaklega ef þau eru dáin og hætt að vera með vesen og sérstaklega ef minning þeirra þjónar ferðamannaiðnaðinum), en til samanburðar mætti benda á að nokkrum (hundruðum) kílómetrum sunnar, í safni tileinkað Brontë systrunum í Haworth á Norður-Englandi, er ekki mikill matur gerður úr ljóðunum hennar elsku Emily, og erfitt að ímynda sér að túristahaugurinn sem heimsækir staðinn (nálægt hundrað þúsund manns á hverju ári) hafi mikið gluggað í ljóðin.

Írland er vissulega, í stóra samhenginu, nokkuð jákvætt gagnvart ljóðlistinni – þ.e.a.s. að þar er haldið sérstaklega upp á ljóðlistina sem bókmenntaform, og saga Írlands eins og hún hefur verið skrifuð státar sig af skáldum landsins. En það breytir því ekki að það er engin bókabúð í Bellaghy utan veggja HomePlace, og er safnið því ákveðin vin í ljóðaeyðimörk landsbyggðarinnar.

  Seamus Heaney HomePlace í Bellaghy í miðri Londonderrysýslu á Norður-Írlandi – eina bókabúðin í bænum.

Seamus Heaney HomePlace í Bellaghy í miðri Londonderrysýslu á Norður-Írlandi – eina bókabúðin í bænum.

Nálgun safnsins er nokkuð hefðbundin en þó áhugaverð. HomePlace er stútfullt af munum hans Seamus – þarna er skólaborðið sem hann sat við sem barn; gamla skjalataskan hans; ótal myndir af honum, fjölskyldunni hans og fólkinu sem hann þekkti. Og allt er þetta greint í smáatriðum. Allar utanlandsferðir hans eru kortlagðar. Ljósmyndir af og lýsingar á fólki og stöðum sem bregða fyrir í einstökum ljóðum þekja einn vegg, og upplýsingar um börn og barnabarnabörn Seamus og konunnar hans, Marie, klæða annan. Þetta minnir í rauninni bara á venjulegt safn nema hvað fólkið á myndum er margt þeirra ennþá sprelllifandi og standa í eigin persónu í næsta herbergi.

Fyrsta hæðin er þannig tileinkuð manninum sem fígúru, en gerir einnig tilraun til þess að lýsa leiðina inn í ljóð hans með því að varpa ljósi á það sem er áþreyfanlegt – á staði og fólk. (Þetta eru auðvitað klassísk mistök, en meira um það síðar.)

  Gestir skoða ítarefni um börn Seamus og Marie Heaney í HomePlace.

Gestir skoða ítarefni um börn Seamus og Marie Heaney í HomePlace.

Á efri hæð húsins er sama tilraun gerð en með örlítið öðrum hætti. Þar eru einnig ljósmyndir af því sem kemur fram í ljóðum Seamus, nema viðfangsefnið er í þessu samhengi meira abstrakt. Veggirnir eru þannig þaktir myndum af því sem átt er að hafa veitt Seamus innblástur (ég hugsa, í hvert skipti sem ég heyri þetta orð, alltaf um viftu sem blæs óþægilega framan í viðkomandi. Innblástur ætti miklu frekar að vera myndlíkt við sólargeisla, eða eitthvað annað fyrirbæri sem er nærri því að brúa hinn efnislega og hinn óræða – yfirnáttúrlega – dulræna heim). En myndirnar sýna m.a. tunglsljós sem glampar yfir dimman sjó; uglu; hrúgu af jarðarberjum; hjóldekk. Annars staðar í herberginu hangir órói af stökum orðum úr ljóðum Seamus.

Hér höfum við svosem heiðarlega tilraun til að nálgast flókið fyrirbæri – hvernig ætti að reisa minnismerki um skapandi mann og sköpunarverk hans? Hvernig fangar maður jafn abstrakt fyrirbæri og innblástur? Það er ástæða fyrir því að flestar tilraunir til að gera skil á skapandi ferli listamanna ganga illa upp – það er nánast ómögulegt að kortleggja þetta: flest skáld vita það ekki sjálf hvernig sköpunarverk þeirra verða til og það að sitja við borð í marga klukkutíma telst víst ekki vera nægilega dýnamísk lýsing á verknaðinum.

Svarið er þá, eflaust, að maður getur ekki kortlagt innblástur eða sköpunarferli. Sköpunarverkið – skáldverkið sem slíkt – vaknar til lífs í huga skáldsins og lifir á endanum aðeins í huga lesandans. Bókin sem hlutur er vissulega jarðtengd, og kann vissulega að vera sculptural, eins og sumir vilja lýsa henni – hún hlúir semsagt að fisískum lögmálum. En verkið sjálft gerir það ekki, skáldverkið lifir ekki í hinum efnislega heimi.

  Heiðamýrlendið í bakgarði Brontë systranna í Vestur-Yorkshire á Englandi.  Mynd © Vala Þórodds

Heiðamýrlendið í bakgarði Brontë systranna í Vestur-Yorkshire á Englandi. Mynd © Vala Þórodds

Blessun og bölvun ljóðlistarinnar er einmitt sú að það er býsna erfitt að koma henni fyrir upp á vegg. Þess vegna getur hún verið svo hættuleg – það liggur við að hún sé bara hugmynd. (Þegar maður sér bókahillu hugsar maður ekkert endilega um texta.) Og þá sitjum við uppi með þetta vandamál – hvernig er hægt að búa til safn, fisískt rými, um skáldskap og um skrifandi fólk? Það virðist sem við getum ekki annað gert en að reyna, því söfn eru staðir til varðveislu, þau eru okkar minnismerki – okkar leið til að viðurkenna þá sem hafa troðið farveginn sem við göngum í dag.

Á Englandi er mikið af svokölluðum bláum veggskjöldum, eða blue plaques, sem sýna fram á að eitthvað merkilegt hafi átt sér stað í einhverju húsi. Eitt slíkt hangir utan á Chalcot Square númer 3 í Primrose Hill í London – húsinu þar sem Sylvia Plath bjó með Ted Hughes, átti sitt fyrsta barn og gaf út sína fyrstu ljóðabók, The Colossus, og sína fyrstu og einu skáldsögu, The Bell Jar.

Margir mótmæltu því að blái veggskjöldurinn til minningar Sylviu yrði staðsettur þar en ekki við 23 Fitzroy Road, þar sem hún skrifaði sitt síðasta og frægasta verk, Ariel, og þar sem hún tók sitt eigið líf. Aðspurð af hverju skjöldurinn hafi verið settur við Chalcot Square en ekki Fitzroy Road, svaraði Frieda Hughes, dóttir Sylviu og Ted, „móðir mín dó þar … en hún lifði hér.“

Ég átti nýlega erindi í búð í Bloomsbury hverfinu í London og þegar ég steig út úr búðinni blasti við mér, beint á móti, annað hús sem spilaði hlut í sögu Sylviu og Ted. Þar var enginn skjöldur sjáanlegur en það var eitthvað við heimilisfangið sem virtist mér skyndilega kunnuglegt. Var þetta þar sem Sylvia bjó og „lifði?“ Eða þar sem hún upplifði einn kaldasta vetur í sögu Englands og batt enda á líf sitt? Nei, þetta hljót að vera þar sem Ted kallinn bjó; þar sem hann og Sylvia áttu að hafa fyrst slegið sér saman; þar sem hann hélt framhjá henni kvöldið sem hún drap sig; þar sem hann fékk símtalið næsta dag um að Sylvia væri dáin.

Then a voice like a selected weapon
Or a measured injection,
Coolly delivered its four words
Deep into my ear: “Your wife is dead.”

Ljóðið fræga heitir eftir þessu húsi, „18 Rugby Street“, og birtist í bókinni Birthday Letters sem Ted sendi frá sér aðeins nokkrum mánuðum áður en hann sjálfur dó, þá gamall maður, úr krabbameini árið 1998.

So there in Number Eighteen Rugby Street's
Victorian torpor and squalor I waited for you.
I think of that house as a stage-set

Four floors exposed to the auditorium.
On all four floors, in, out, the love-struggle
In all its acts and scenes, a snakes and ladders
Of intertangling and of disentangling
Limbs and loves and lives. Nobody was old.
An unmysterious laboratory of amours.
Perpetual performance
– names of the actors altered,
But never the parts. They told me: 'You
Should write a book about this house. It's possessed!
Whoever comes into it never gets properly out!
Whoever enters it enters a labyrinth

A Knossos of coincidence! And now you're in it.'
[...]

  Top Withens, eyðibýli í nágreni þorpsins Haworth þar sem Brontë systurnar bjuggu, er talið af sumum vera innblástur Wuthering Heights í samnefndri skáldsögu eftir Emily Brontë.  Mynd © Vala Þórodds

Top Withens, eyðibýli í nágreni þorpsins Haworth þar sem Brontë systurnar bjuggu, er talið af sumum vera innblástur Wuthering Heights í samnefndri skáldsögu eftir Emily Brontë. Mynd © Vala Þórodds

Nokkrum vikum seinna heimsótti ég hús Brontë systranna í Vestur-Yorkshire – þar sem þær skrifuðu allar sín helstu verk, veiktust og voru dregnar til dauða langt fyrir aldur fram – Anne 29 ára, Emily 30, og Charlotte 38 ára. (Söguperrar munu réttilega benda á að Emily dó reyndar ekki í húsinu, heldur í Scarsborough þar sem hún hafði vonast til að ferska sjávarloftið myndi lækna sig af berklunum sem engu að síðar drápu hana fjórum dögum eftir brottför frá húsinu.)

Systurnar voru að sjálfsögðu ekki heima þegar ég bankaði upp á hjá þeim í Haworth og húsið vakti í mér engar tilfinningar. Ég hafði einhvern veginn búist við því, og komið með það markmið helst að skoða heiðamýrlendið í bakgarðinum sem spilaði svo stóran hlut í verkum þeirra, sérstaklega Emily. Eftir að hafa skoðað hina ýmsu rúmstokka og kjóla og pennaodda í húsinu gekk ég loks af stað í átt að mýrunum, í von um að upplifa staðinn þar sem þær systurnar – og ímyndunarafl þeirra – höfðu í raun „lifað.“

Sólin skein og ég gekk í allt að fjóra klukkutíma, þangað til ég kom á endanum að smábænum Heptonstall, skammt frá því þar sem Ted Hughes var alinn upp og hvar Sylvia Plath er grafin. Ég hafði komið þangað nokkrum laugardögum fyrr af hálfgerðri tilviljun, ekki vitandi þá að hægt væri að labba á milli grafa þessara miklu skálda. Þá hafði ég séð, við legstein Sylviu, fjöldann allan af pennum og einnig eina búðarkvittun sem sýndi fram á kaup á ljóðabókinni Ariel, verkið sem Sylvia skildi eftir sig þegar hún dó.

Það er ekki svo einfalt eftir allt saman að staðsetja fólk – eða allra heldur minningu þeirra – eftir að það er farið úr þessum heimi. Við höfum (oftast) grafreitina en það er einhvern veginn ekki nóg – maður finnur ekki fyrir manneskjum þegar maður heimsækir grafir þeirra, grafreitir eru miklu frekar minnismerki um dauða heldur en um líf einhvers.

Og þá leitum við annað, leitum að minnismerkjum um lífið.

Skáldskapur er svolítið eins og minning. Við eigum tákn, skúlptúra – bækur – en minningin lifir aðeins í huganum. Ég þykist ekki þekkja manneskjuna Sylviu en ég hitti hana stundum í huganum. Sem skáld er hún vinkona mín. Brontë systurnar líka. Og ég minnist þeirra oftast heima hjá mér, og í bókahillunni minni standa mörg minnismerki um þær.

  Leikkonan Fiona Shaw les ljóðið  „ Mycenae Lookout “  eftir Seamus Heaney í morgunmistrinu við Lough Beg á Norður-Írlandi.  Mynd © Vala Þórodds

Leikkonan Fiona Shaw les ljóðið Mycenae Lookout eftir Seamus Heaney í morgunmistrinu við Lough Beg á Norður-Írlandi. Mynd © Vala Þórodds

Á opnunarhátíð HomePlace var keyrt með gestina snemma morguns að Lough Beg og þar í morgunmistrinu las leikkonan Fiona Shaw upp ljóðið „Mycenae Lookout“ eftir Seamus Heaney. Það var ótrúlega kalt. Okkur var skenkt írskt viskí í plastglös. Moldin var blaut og rakinn gerði kuldann gjörsamlega miskunnarlausan. Í fjarska hafði verið kveiktur lítill eldur í grasinu. Fiona stóð á heybagga og las. Kuldinn náði inn undir allt. Það var ekkert að sjá nema mistrið. Á meðan við hlustuðum var ekkert að gera nema að reyna að stíga upp úr og út úr líkamanum. Að gleyma því áþreifanlega og hverfa inn í textann.

Hvernig nálgast maður það sem ekki er jarðneskt? Er það ekki einmitt það sem trúarlegar athafnir reyna að gera? Og hvað er upplestur þá annað en töfraþula, eða kannski miðilsfundur? Árla morguns reyndum við að hengja sköpunarverkið upp í mistrinu. Og í nokkrar mínútur, já – þar hékk það.