Contact Us

Use the form on the right to contact us.

You can edit the text in this area, and change where the contact form on the right submits to, by entering edit mode using the modes on the bottom right. 


Reykjavík

Partus Press is an independent publisher based in Reykjavík, Iceland and Manchester, UK – we are committed to the discovery of contemporary Icelandic and international literature.

Virgilio Piñera

Virgilio Piñera .  Myndina tók     Ida Kar .

Virgilio Piñera.

Myndina tók Ida Kar.

Virgilio Piñera (1912 – 1979), var eitt af höfuðskáldum Kúbu á 20. öld, þótt frægðarsól hans hafi fyrst verið að rísa fyrir alvöru á síðustu áratugum. Þungi eyjunnar (Partus 2016) er fyrsta verk hans sem kemur út í íslenskri þýðingu, en Kristín Svava Tómasdóttir þýddi verkið og skrifaði eftirmála.

Virgilio Piñera var fæddur í Cárdenas á Kúbu þann 4. ágúst 1912. Á fullorðinsaldri fluttist Piñera til Havana þar sem hann varð fljótlega atkvæðamikill í menningarlífi kúbönsku höfuðborgarinnar. Hann tilheyrði hópi rithöfunda sem hefur jafnan verið kenndur við bókmenntatímaritið Orígenes, en það var með mikilvægustu bókmenntatímaritum í Rómönsku Ameríku á sinni tíð.

Piñera var meðal þeirra sem studdu kúbönsku byltinguna í fyrstu. Um tíma naut hann töluverðrar og langþráðrar velgengni sem rithöfundur og skrifaði reglulega í menningartímarit byltingarinnar, Lunes de Revolución. Þegar kom fram á 7. áratuginn byrjuðu stjórnvöld hins vegar að herða tök sín á kúbönsku menningarlífi. Piñera hafði ástæðu til að óttast þá pólitísku þróun sem var að eiga sér stað á Kúbu. Hann var ekki aðeins gagnrýninn og uppreisnargjarn höfundur heldur var hann samkynhneigður, sem samræmdist ekki hugsjón kommúnista um hinn nýja mann. Piñera lifði það sem eftir var ævi sinnar í stöðugum ótta við handtökur og ofsóknir stjórnvalda. Síðasta áratuginn sem hann lifði var honum gert ókleift að yfirgefa eyjuna og þótt hann héldi áfram að skrifa voru leikrit hans ekki sett upp á Kúbu, bækur hans voru fjarlægðar úr hillum verslana og bókasafna og engin ný verk eftir hann gefin út. Þegar Virgilio Piñera lést í Havana árið 1979 var hann flestum gleymdur.

Þungi eyjunnar , í þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur, er fyrsta verk Virgilio Piñera sem kemur út á íslensku. Ljóðið kemur út hjá Partusi í desember 2016.

Þungi eyjunnar, í þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur, er fyrsta verk Virgilio Piñera sem kemur út á íslensku. Ljóðið kemur út hjá Partusi í desember 2016.

Piñera átti þó eftir að hljóta uppreisn æru. Á síðari hluta 9. áratugarins voru verk hans enduruppgötvuð og endurútgefin og hann varð nýrri kynslóð kúbanskra skálda mikill innblástur. Smám saman barst hróður hans út fyrir landsteinana og síðustu ár og áratugi hafa verk hans verið þýdd á ýmis tungumál og umfjöllun um þau aukist mjög á alþjóðavísu. Þungi eyjunnar er hans langþekktasta ljóð en af öðrum þekktum verkum Piñera má nefna leikritið Electra Garrigó, skáldsöguna La carne de René („Hold Renés“) og smásagnasafnið Cuentos fríos („Kaldar sögur“).

Í Þunga eyjunnar tekst Piñera meðal annars á við sögulegt óréttlæti liðinna alda á Kúbu. Stíll og myndmál ljóðsins hneykslaði marga lesendur ekki síður en efnistökin. Þótt myndmálið í Þunga eyjunnar sé oft bæði súrrealískt og glæsilegt er orðfærið óhátíðlegt, jafnvel óheflað, og myndirnar grófar; hestarnir fara upp á merarnar, jómfrúrnar örva limi karlmannanna fimlega, hádegið hefst á loft með fretum. Þungi eyjunnar einkennist þannig bæði í stíl og efnistökum af þeirri afhelgun hins upphafna og háleita sem er gegnumgangandi í öllum verkum Virgilio Piñera, hvort sem það snýr að þjóðerni, skáldskap eða trú. Piñera leggur þvert á móti áherslu á hið efnislega, hið holdlega, hið blautlega – gróður, veður, birtu, hluti, líkama, í sjálfum sér en ekki sem tákn um eitthvað æðra – eins og kemur svo vel fram í ljóðlínunni: „Himnaríki og helvíti sundrast og jörðin ein er eftir“.

– úr eftirmála Kristínar Svövu Tómasdóttur